Fiskveiðisamningar við ESB blekking

Jón Bjarnason á aðalfundi LÍÚ í dag.
Jón Bjarnason á aðalfundi LÍÚ í dag. mbl.is/Jakob Fannar

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, sagði á aðalfundi LÍÚ í dag, að hugmyndir um að Íslendingar nái varanlegum samningum í aðildarviðræðum  við Evrópusambandið um að 200 mílna efnahagslögsaga Íslands yrði viðurkennt sem sérstakt fiskveiðisvæði undir stjórn Íslendinga væru aðeins blekking. 

„Heyrst hefur það sjónarmið að Ísland geti náð tímabundnum eða jafnvel varanlegum samningum um að 200 mílna lögsaga okkar yrði viðurkennd sem sérstakt fiskveiðisvæði undir stjórn Íslendinga. Slíkir samningar yrðu líkt og fiskveiðisamningar sem ESB gerði við Breta aðeins blekking því þegar kæmi til kasta Evrópudómstólsins stæðust þeir aldrei grundvallarlög sambandsins," sagði Jón.

Hann sagði, að samningar um aðild að Evrópusambandsins séu vandmeðfarnir, umræðan þurfi að vera vönduð og mikilvægt sé, að Íslendingar horfi þar til langrar framtíðar, á hagsmuni afkomendanna og líti á heildina í stóru sögulegu samhengi. 

Þá sagðist Jón, sem ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, hafa mótmælt því aðlögunarferli að Evrópusambandinu, sem nú eigi sér stað og muni ekki fallast á að málefni þau sem falla undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verði aðlöguð að regluverki ESB meðan aðild hafi ekki verið ákveðin í þjóðaratkvæðagreiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert