Gott ástand loðnustofns

Loðnuveiðar
Loðnuveiðar mbl.is/Árni Sæberg

Loðnuleiðangur Hafrannsóknarstofnunar að undanförnu bendir til þess að magn ungloðnu er mun meira en mælst hefur í mörg ár. Eins hefur orðið vart við eldri loðnu, það er loðnu sem kemur til með að hrygna á komandi vetri, og er ástand hennar gott.

Í ljósi þess að nú þegar hefur mælst meira en sem nemur 400 þúsund tonnum, sem aflaregla kveður á um að sé skilið eftir til hrygningar, er nú ljóst að Hafrannsóknastofnunin mun veita ráðgjöf um aflamark fyrir komandi vertíð fljótlega eftir að leiðangrinum lýkur.

Þó þessar niðurstöður bendi til að ástand loðnustofnsins og horfur í loðnuveiðum séu betri en verið hefur um nokkurt skeið, benda mælingarnar þó til að hrygningarstofn loðnunnar sé enn mun minni en hann var í lok síðustu aldar, samkvæmt frétt frá Hafrannsóknarstofnun.

Eins og fram hefur komið hefur Hafrannsóknastofnunin staðið fyrir umfangsmiklum leiðangri rannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar umhverfis landið sem einnig nær til grænlenskrar lögsögu. Í þessum leiðöngrum hafa verið sameinuð þrjú rannsóknaverkefni, þ.e. stofnmæling botnfiska að haustlagi (haustrall), loðnumæling og mælingar á ástandi sjávar.

Bjarni Sæmundsson kom til hafnar í Reykjavík þann 21. október sl., en Árni Friðriksson er ekki væntanlegur fyrr en um eða eftir aðra helgi þar sem útbreiðsla loðnustofnsins hefur verið meiri en gert var ráð fyrir í upphafi. Aðstæður til mælinga hafa yfirleitt verið góðar og mjög lítill ís verið á rannsóknasvæðinu.

Sjá nánar á vef Hafró

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert