Ólína kemur að samningu frumvarpsins

Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður og Ögmundur Jónasson ráðherra.
Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður og Ögmundur Jónasson ráðherra. mbl.is/Ómar

Ólína Þorvarðardóttir verður annar af tveim fulltrúum Samfylkingarinnar í vinnuhópi á vegum sjávarútvegsráðherra sem smíða á nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnun.  Þetta kom fram á fundi Samfylkingarinnar með Ólínu og Guðbjarti Hannessyni þingmönnum norðvesturkjördæmis á Ísafirði í gærkvöld. 

Sagt er frá þessu í vefmiðlinum skutull.is. Guðbjartur var formaður nefndar sem skilaði skýrslu um breytingar á lögum um stjórn fiskveiði. Skýrsla nefndarinnar hefur verið til skoðunar í sjávarútvegsráðuneytinu, en nú er fyrirhugað að skipa nefnd sem geri tillögur um breytingar á lögum.

Haft er eftir Ólínu í Skutli að bæði sáttaleið og tilboðsleið, sem fjallað er um í skýrslu viðræðunefndarinnar, hafi nokkuð til síns ágætis.  Taldi hún að með því að nýta kostina úr báðum hugmyndum væri hægt að ná fram markmiðum stjórnarflokkanna beggja um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi sem byggði á ótvíræðu eignarhaldi þjóðarinnar, innköllun og endurúthlutun aflaheimilda og tímabundnum samningum um afnotarétt eða veiðirétt.

Ekki hefur enn verið upplýst um það hverjir verði fulltrúar Vinstri grænna í nefndinni, eða hver verður hinn fulltrúi Samfylkingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert