Óttast um íslenska tungu

Íslensk málnefnd óttast að íslenskan geti horfið út úr íslensku …
Íslensk málnefnd óttast að íslenskan geti horfið út úr íslensku háskólasamfélagi mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Íslensk málnefnd óttast að ef ekki verði breyting á hvað varðar kennslu á íslensku í íslensku háskólasamfélagi þar sem námskeiðum og heilum námsbrautum á ensku fjölgar, blasi við að verulega muni þá þrengt að íslenskri tungu í háskólasamfélaginu á Íslandi.

Svo gæti farið að íslenska yrði ekki lengur gjaldgeng í íslenskum háskólum og yrði að víkja þar fyrir ensku. Við það myndi staða íslenskrar tungu í íslensku samfélagi veikjast. Þetta kemur fram í nýrri ályktun frá Íslenskri málnefnd en í henni er horft til stöðu íslenskunnar í háskólasamfélaginu.

80% doktorsritgerða á ensku

Þar kemur meðal annars fram að 80% doktorsritgerða við Háskóla Íslands á árunum 2000–2009 voru á ensku.

Í mörgum háskólagreinum er mikill meirihluti námsefnis á erlendum málum en svo hefur reyndar verið um langa hríð, segir í ályktun Íslenskrar málnefndar.

Á síðustu árum hefur hlutur ensku vaxið mjög og jafnframt dregið úr notkun námsefnis á öðrum erlendum málum. Svo er komið að ætla má að námsefni á ensku sé um og yfir 90 af hundraði alls námsefnis á háskólastigi á Íslandi.

17 námsbrautir Háskólans í Reykjavík alfarið kenndar á ensku

Þar kemur einnig fram að af um 2.250 kenndum námskeiðum skólaárið 2009–2010 voru 250 námskeið kennd á ensku eða ríflega 11 af hundraði. Af þessum 250 námskeiðum voru 120 í grunnnámi eða 48 af hundraði.

Við Háskólann í Reykjavík hafa alls sautján námsbrautir verið kenndar alfarið á ensku. Þar er meðal annars um að ræða meistaranámsbrautir í verkfræði, viðskiptafræði, tölvunarfræði og lýðheilsu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert