Áttu fund með Jóhönnu og Steingrími

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og Signý Jóhannesdóttir varaforseti ASÍ áttu ásamt Ólafi Darra Andrasyni hagfræðingi samtakanna í dag fund með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra, og kynntu áherslur og ályktanir ársfundar ASÍ.

Í máli forystumanna ASÍ kom fram, að þrátt fyrir mikil vonbrigði og tortryggni innan raða ASÍ gagnvart stjórnvöldum vegna vanefnda í framvindu Stöðugleikasáttmálans, voru skilaboð ársfundafulltrúanna skýr. Krafist var viðtæks samstarfs og samvinnu stjórnvalda, stjórnarandstöðu, atvinnurekenda og stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði um það verkefni að auka kaupmáttinn og fjölga störfum.

Jafnframt lögðu forsetarnir áherslu á að forsendan fyrir slíkri víðtækri sátt og samvinnu væri að lífeyrisréttindi allra landsmanna verði jöfnuð, að tryggt verði að allir félagsmenn ASÍ njóti réttinda til starfsendurhæfingar og að byggt verði upp traust milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.
 
Fram kom í umræðum á fundinum að ekki liggja fyrir neinar ákvarðanir um það, með hvaða hætti aðildarsamtök ASÍ hyggjast haga samstarfi sínu við gerð næstu kjarasamninga. Svo langt væri undirbúningur kjarasamninga ekki komin, en ársfundur ASÍ hvatti aðildarfélögin hins vegar til að sameinast um samræmda launastefnu með áherslu á almennar launahækkanir og jöfnun kjara. Ljóst væri, að ekki liggi enn fyrir neinar forsendur fyrir fyrrgreindu samstarfi, en í samtölum við oddvita ríkisstjórnarinnar kom fram að það væri viðfangsefni forystu ASÍ að ræða við stjórnvöld, stjórnarandstöðu og önnur samtök á vinnumarkaði og kanna vilja til slíkrar samvinnu á víðtækum grunni. Slíkir fundur eru áformaðir á næstu vikum til að kynna niðurstöður ársfundar ASÍ.
 
Fram kom af hálfu forsætisráðherra að mikill vilji væri af hálfu ríkisstjórnarinnar að koma á slíku samstarfi og munu aðilar stefna að því að hittast aftur síðar og bera saman bækur sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert