Millitekjufólk fái launahækkanir

Guðmundur Gunnarsson, formaður RSÍ.
Guðmundur Gunnarsson, formaður RSÍ. mbl.is

„Það blasir við að millitekjuhóparnir hafa farið verst út úr þessu af öllum,“ segir Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, en hann segir að millitekjuhóparnir sætti sig ekki við að fá ekki neitt út úr næstu kjarasamningum líkt og gerðist í tveimur síðustu samningum.

„Það blasir við að millitekjuhóparnir hafa farið verst út úr þessu af öllum. Kannanir sýna að þeir skulda mest; þeir höfðu jú efni á því að skuldsetja sig. Þeir voru með greiðslubyrði í samræmi við þær tekjur sem þeir höfðu. Það eru millitekjuhóparnir sem hafa þurft að taka á sig mestu launaskerðinguna á síðustu tveimur árum,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur sagði að í tveimur síðustu kjarasamningum hefðu millitekjuhópar, þ.e. iðnaðarmenn og um helmingur félagsmanna í VR, fengið nánast ekkert út úr samningunum. Hann sagði að vegna mikils innflutnings erlends vinnuafls, sem var á lágum launum í samkeppni við innlent vinnuafl, hefði verið mikill áhugi á, bæði meðal verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda, að bæta samkeppnisstöðuna með því að hækka lægstu taxta. Taxtar Rafiðnaðarsambandsins hefðu t.d. verið hækkaðir um 48% umfram almenna samninga. Þetta hefði kostað fyrirtækin sáralítið því mjög fáir hefðu verið á þessum töxtum.

Í samningunum 2008 hefði verið samið um svokallaða baksýnisspegla sem snerist um að þeir sem ekki hefðu fengið 5,5% launahækkun síðustu 12 mánuði á undan ættu rétt á leiðréttingu. Þetta ákvæði hefði byggst á því að tryggja öllum hlutdeild í launaskriði.

„Þá brá svo við að Samtök atvinnulífsins fóru að halda námskeið í gríð og erg með sínum félagsmönnum þar sem þeim var kennt að smeygja sér framhjá þessu. Þetta var gert með því að segja upp fólki og ráða það aftur. Þetta varð til þess að stórir hópir af iðnaðarmönnum og félagsmenn í VR fengu nánast ekkert út úr þessum kjarasamningum.“

Verðum að fá a.m.k. það sama og aðrir

Guðmundur sagðist viðurkenna að þessir millitekjuhópar hefðu fengið mikið út úr launaskriði á árunum 2003-2007. Það hefði þó komið misjafnlega niður. „Það hefur komið mjög skýrt fram á fundum hjá okkur, og ég tel að það sama eigi við um aðra iðnaðarmenn, að það sé komin röðin að þeim. Menn ætla að krefjast a.m.k. sömu launahækkana og aðrir koma til með að fá. Iðnaðarmennirnir fjármögnuðum þessar hækkanir á lægstu töxtunum síðast og ég lagði áherslu á það á ársfundi ASÍ, að menn yrðu að gera sér grein hver okkar afstaða væri áður en einstakir verklýðsforingjar, t.d. í Starfsgreinasambandinu, færu að lofa sínu fólki sérstökum hækkunum.“


Guðmundur sagðist gera sér grein fyrir að það væri úr frekar litlu að spila, en rafiðnaðarmenn ætluðu sér að sækja sinn hlut. Hann sagðist vera tilbúinn til að ræða í komandi samningu um atriði sem þýddu kannski ekki beinar launahækkanir, en laun yrðu hins vegar að hækka.


Guðmundur sagði að Rafiðnaðarmenn hefðu stutt stöðugleikasáttmálann sem gerður var við SA og ríkisstjórnina. Þess vegna hefðu þeir orðið fyrir miklum vonbrigðum með að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við sitt varðandi atvinnumálin. Þetta hefði komið mjög illa við iðnaðarmenn sem hefðu þurft að taka á sig launaskerðingar, auk þess sem stórir hópar hefðu misst vinnuna.


Innan Starfsgreinasambandsins eru uppi kröfur um að sækja meiri launahækkanir til fyrirtækja í útflutningsgreinum sem standi vel. Guðmundur sagði þetta þýða að erfitt yrði fyrir verkalýðshreyfinguna að móta einhverja sameiginlega kröfugerð í næstu samningum. Hann sagði að rafiðnaðarmenn væru ekki tilbúnir til að fara í sameiginlegt samfloti um launastefnu. Menn yrðu hins vegar að taka sameiginlega á í atvinnumálum og bæta hagstjórn í landinu. „Ef við ætlum að ná okkur út úr þessu þá verður það ekki gert nema með sameiginlegu átaki. Það verður ekki gert með því að menn lofi einu en standi svo ekki við það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert