Treysti sér með lögreglubílnum

Svarti kassinn hægra megin á myndinni er ökumannshúsið sem rifnaði …
Svarti kassinn hægra megin á myndinni er ökumannshúsið sem rifnaði af með bílstjóranum inn í. Lögreglumaður frá Hólmavík kom að slysinu og flutti slasaðan ökumanninn til móts við sjúkrabíl. mynd/lögreglan á Ísafirði

Flutningabílstjóri sem slasaðist í Ísafjarðardjúpi síðastliðið þriðjudagskvöld treysti sér til að fara með lögreglubíl til móts við sjúkrabíl sem var á leið á slysstað með lækni. Lögreglumaður frá Hólmavík mat ástandið svo að koma þyrfti hinum slasaða sem fyrst undir læknishendur.

Samkvæmt heimildum mbl.is er talsvert rætt um það á meðal fólks fyrir vestan hvort rétt hafi verið brugðist við í þessu tilviki. Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, segir að þetta mál verði að sjálfsögðu skoðað, eins og önnur slík mál, og farið yfir alla ferla.  

Önundur sagði að lögreglumaðurinn hafi verið að koma af fundi hjá Lögreglunni á Vestfjörðum sem haldinn var í Bolungarvík á þriðjudagskvöld í síðustu viku. Hann var á heimleið á lögreglubílnum þegar hann kom að slysstaðnum í Hlaðsvík í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi seint um kvöldið. Slysstaðurinn er nánast mitt á milli Hólmavíkur og Ísafjarðarkaupstaðar, þó er um 3 km styttra til Hólmavíkur.

„Það var mat lögreglumannsins á staðnum að koma manninum sem allra fyrst undir læknishendur. Það ræður ákvörðun um að hreyfa manninn,“ sagði Önundur.

Hann sagði að ökumaður bílsins hafi verið meðvitundarlaus þegar að var komið. Lögreglumaðurinn kallaði strax á sjúkrabíl og lækni frá Hólmavík og beið hjá manninum. Önundur sagði að ferilriti lögreglubílsins staðfesti það. Ökumaðurinn komst síðan til meðvitundar.

„Lögreglumaðurinn talar við hann þegar hann kemst til meðvitundar. Hinn treysti sér í að fara með lögreglubílnum til móts við sjúkrabílinn og var kominn út úr flakinu. Sjúkrabíllinn var lagður af stað frá Hólmavík með lækni og því tekur lögreglumaðurinn þessa ákvörðun að fara með manninn til móts við sjúkrabílinn,“ sagði Önundur. 

Lögreglubíllinn og sjúkrabíllinn mættust síðan á Steingrímsfjarðarheiði og þar var sá slasaði fluttur í sjúkrabílinn þar sem læknirinn tók við  og hlúði að manninum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert