Sjálfstæðismenn vilja samráð um trúmál

Frá sunnudagaskólanum í Lindasókn í Kópavogi
Frá sunnudagaskólanum í Lindasókn í Kópavogi hag / Haraldur Guðjónsson

Sjálfstæðismenn í mannréttindaráði borgarstjórnar segja augljóst að samstaða og sátt ríki ekki um tillögu meirihlutans og Vinstri grænna um að „banna heimsóknir [trúfélaga] í skóla". Sjálfstæðismenn ítrekuðu í dag þá afstöðu sína að óásættanlegt sé að „ætla ekki að fá breiða samstöðu um svo stórtækar breytingar".

Á aukafundi mannréttindaráðs í dag lögðu Sjálfstæðismenn fram tillögu um að hafin verði vinna við að ná víðtækri samstöðu við foreldra, skóla, nemendur, fræðimenn, þjóðkirkju og trúar- og lífsskoðunarfélög með það að markmiði að leggja mat á hvort ástæða sé til þess að endurmeta samstarf trúar- og lífsskoðunarfélaga við grunnskóla og leikskóla í Reykjavíkurborg.

„Leiði samstarfið til tillagna af hálfu ráðsins verði þær sendar til annarra ráða og stofnana borgarinnar, bornar undir foreldra, auk trú- og lífsskoðunarfélaga eins og Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar hljóðar á um," segir í tillögu Sjálfsstæðismanna.  Meirihluti Samfylkinga og Besta flokks, auk VG, hafnaði þessari tillögu í dag með þeim orðum að ekki væri ástæða til að „mynda enn annan stýrihópinn um nákvæmlega sama málefnið" þar sem stýrihópur sem fór yfir málið árið 2007 hafi komist að þeirri niðurstöðu að setta þyrfti reglur um samskipti kirkju og skóla.

Sjálfstæðismenn nefna skýrslu sama starfshóps frá 2007 máli sínu til stuðnings. Þar komi eftirfarandi fram: „Til þess að fyrirbyggja misskilning eða árekstra í skólastarfi er mikilvægt að yfirvöld skólamála í sátt við trúar- og lífsskoðunarhópa og foreldra, setji fram skýr markmið með samvinnu, sem eru öllum kynn, og tilgangur með samstarfinu ljós."

Sjálfstæðismenn segja að megin tilgangur þessarar vinnu eigi að vera að skapa sátt um mál sem í eðli sínu sé viðkvæmt. „Það er augljóst að með þeirri tillögu sem nú liggur fyrir í mannréttindaráði er ekki verið að fara eftir þessum tillögum og alls ekki verið að tryggja samráð og samstarf með tillögunni. Það er hagur allra að breið samstaða náist um þetta mál og að samstarf þessara hópa sé eins og best verður á kosið fyrir börnin í borginni,"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert