Verður sleppt

mbl.is/Eggert

Gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum sem eru grunaðir um aðild að umfangsmiklu fjársvikamáli rennur út síðdegis í dag. Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að ekki sé gerð krafa um framlengingu og mönnunum verði því sleppt.

Rannsókn málsins stendur enn yfir, en um er að ræða mál þar sem talið er að sviknar hafi verið 270 milljónir króna út úr virðisaukaskattskerfinu. Meðal þeirra sem eru grunaðir um aðild að málinu er einn starfsmaður embættis ríkisskattstjóra, sá var ráðinn til starfa 2008.  Aðeins er búið að endurheimta mjög lítið af heildarupphæðinni.

Þá bíður lögreglan eftir því að Íslendingi sem var handtekinn í tengslum við rannsókn málsins í Venesúela í lok september verði fluttur til landsins. „Við bíðum þess að yfirvöld í Venesúela framkvæmi það sem þau voru búin að boða, að fylgja manninum til Íslands,“ segir Jón.

Maðurinn verður ekki framseldur heldur brottvísað. „Við höfum óskað eftir því að fá að gera allar þær ráðstafanir sem í okkar valdi eru til þess að liðka fyrir því. Þetta er alfarið á þeirra hendi,“ segir Jón. 

„Okkur skilst nú að þetta sé ekki óeðlilegt miðað við þeirra málsmeðferðarhraða,“ bætir Jón við.

Aðspurður segir hann að rannsókn málsins miði áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert