Fleiri fara gangandi og hjólandi en áður

Reiðhjólamenning virðist fara vaxandi á Íslandi og hefur þeim fjölgað …
Reiðhjólamenning virðist fara vaxandi á Íslandi og hefur þeim fjölgað sem velja hjólið fram yfir bílinn. Eggert Jóhannesson

Ferðamáti íbúa á höfuðborgarsvæðinu hefur breyst talsvert frá því fyrir efnahagshrun. Þannig hefur þeim fækkað sem nota yfirleitt einkabíl til sinna ferða og á sama tíma hefur þeim hlutfallslega fjölgað sem fara gangandi og hjólandi. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar á ferðavenjum Íslendinga 2010 sem unnin var fyrir samgönguyfirvöld.

Munurinn skýrist að hluta til á því að fyrri niðurstöður eru frá könnun sem gerð var að vetri til 2008, en könnunin 2010 var gerð að sumri. Minni notkun á einkabíl er samt þróun sem var hafin í fyrra, því þá sögðust 84% yfirleitt fara sinni erinda á eigin bíl að vetri til, en veturinn 2008 voru það 86% höfuðborgarbúa. 5% svarenda árið 2010 svöruðu því til að þeir ferðuðust á reiðhjóli, en aðeins 2% árið 2008. Að sama skapi kjósa 6% að fara ferða sinna á tveimur jafnfljótum í ár, en það hlutfall var aðeins 3% fyrir tveimur árum. 

Notkun einkabílsins er langminnst í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar og sker sá borgarhluti sig frá öðrum hlutum höfuðborgarsvæðisins. Aðeins 64% segjast nota einkabíl í vestan Kringlumýrarbrautar, en hlutfallið er 80-90% í öðrum borgarhlutum. Þar sögðust jafnframt 16% yfirleitt fara allra sinna ferða gangandi og 8% á reiðhjóli. Þáttakenndur voru líka spurðir hvort þeir noti einkabílinn minna nú en fyrir tveimur árum og svöruðu 32% því játandi. 58% sögðust nota hann svipað og 11% meira.

Í skýrslu um könnunina kemur fram að áhrif kreppunar á umferð sé umtalsverð og umferðarmagn í ár verði á heildina líklega svipað og það var 2006. Jafnframt að almenn viðhorfsbreyting hafi orðið á höfuðborgarsvæðinu eftir kreppu gagnvart samgöngustefnu yfirvalda. Í dag séu háværari óskir en áður um bættar almenningssamgöngur, göngu- og hjólastíga í stað útvíkkunar á stofnbrautakerfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert