Stjórnarskrá fyrir fólkið

Þjóðfundurinn þótti vel heppnaður.
Þjóðfundurinn þótti vel heppnaður. Morgunblaðið/Eggert

Niðurstöður af Þjóðfundi um stjórnarskrá Íslands, sem haldinn var í Laugardalshöll í gær, liggja nú fyrir og verða þær lagðar fyrir stjórnlagaþing, sem kemur saman í febrúar 2011, til viðmiðunar. Niðurstöður eru m.a. þær að aðskilja skuli ríki og trúfélög, vægi atkvæða skuli vera jafnt í einu kjördæmi, þingmönnum verði fækkað og vald forseta endurskoðað.

Kveðið er á um að stjórnarskráin sé sáttmáli sem tryggi fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og sé skrifuð fyrir fólkið í landinu. Hún eigi að standa vörð um íslenska tungu, menningu og auðlindir þjóðarinnar en jafnframt stuðla að fjölmenningu og aðskilnaði ríkis og trúfélaga.

Niðurstöðunum er skipt í 8 efnisflokka, en þeir eru „Land og þjóð", siðgæði, mannréttindi, „réttlæti, velferð og jöfnuður", „náttúra Íslands, vernd og nýting", lýðræði, „valddreifing, ábyrgð og gagnsæi"  og „friður og alþjóðasamvinna".

Skýrt er tekið fram að vægi atkvæða í kosningum á Íslandi skuli vera jafnt í einu kjördæmi. Þingseta verði háð tímatakmörkunum, þingmönnum fækkað og ráðherrar skuli ekki gegna þingmennsku ásamt ráðherraembætti. Endurskoða skuli skipan dómara og einnig vald forseta Íslands og taka afstöðu til neitunarvalds hans. Jafnframt sé ljóst að lýðræðið byggi á þrískiptingu valds og skýrum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg málefni.

Hvað varðar náttúru Íslands eru niðurstöður Þjóðfundar þær að auðlindir landsins séu óframseljanleg þjóðareign sem beri að vernda, umgangast og nýta á sjálfbæran hátt og vernda fyrir komandi kynslóðir. Setja þurfi skýr lög um eigna-og nýtingarétt þjóðarinnar á auðlindum, náttúru og lífríki. Þá segir í niðurstöðunum að Ísland sé málsvari friðar, sé herlaust land og kjarnorkuvopnalaust.

Fundinn sóttu 950 manns af landinu öllu, frá 18 ára til 91 árs að aldri og var kynjaskipting nánast jöfn. Auk þeirra komu um 200 aðstoðarmenn af ýmsu tagi að fundinum. Niðurstöðurnar má nálgast á heimasíðu Þjóðfundar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert