Ögmundur baðst afsökunar

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, kvaddi sér hljóðs á Alþingi og baðst afsökunar á að hafa veitt ónákvæmar upplýsingar um hönnun á nýju fangelsi í fyrirspurnartíma í þinginu fyrr í dag. Ögmundur hafði sagt að samið hefði verið við danska arkitektastofu um hönnun fangelsisins í ráðherratíð Björns Bjarnasonar en upplýsti síðan að samningurinn hefði verið gerður nú í júní.

Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafði fyrr í dag spurt Ögmund um undirbúning nýs fangelsis á Hólmsheiði og hvers vegna danskri arkitektastofu hefði verið falið verkefni í tengslum við það. Spurði Ólöf Ögmund hvernig á því stæði, að verið væri að færa verkefni á sviði hönnunar til útlanda þegar 60% íslenskra arkitekta væru atvinnulaus.

Ögmundur svaraði að ákvörðunin um að fela danskri arkitektastofu verkefnið væri ekki ný af nálinni heldur hefði hún verið tekin í ráðherratíð Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra.

Síðar á þingfundinum kvaddi Ögmundur sér hljóðs og sagðist hafa verið ónákvæmur og misvísandi í orðalagi þegar hann svaraði fyrirspurninni. Sagði Ögmundur að í tíð Björns Bjarnasonar hefði ekki verið unnið að undirbúningi þess fangelsis, sem nú væri fyrirhugað að leysa. Íslensk yfirvöld hefðu hins vegar unnið að undirbúningi nýs fangelsis um árabil. Árið 2008 hefði verið undirbúin bygging að Litla-Hrauni og dönsku arkitektarnir verið fengnir að því verkefni með sama hætti og þeir væru nú að vinna að undirbúningi nýs fangelsis með íslenskum yfirvöldum. Núverandi samningur við arkitektana hefði hins vegar ekki verið gerður fyrr en í júní sl.

„Hér er um frumáætlun nýs fangelsis að ræða sem síðan mun ganga til útboðs og það er mín von að íslenskir arkitektar fái það verkefni," sagði Ögmundur. 

Hann sagði gert ráð fyrir því að hönnunarkostnaður gæti numið allt að 120 milljónum króna og hluti arkitekta af því gæti orðið allt að 50 milljónir. Samningurinn við dönsku arkitektana hljóði hins vegar upp á 5 milljónir króna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert