Greiddi 18 milljónir á mánuði

Um 27 þúsund manns búa í Harrison í New York …
Um 27 þúsund manns búa í Harrison í New York þar sem íslenska konan býr.

Lögregla í Harrison í New York ríki í Bandaríkjunum segir, að maður, sem íslensk kona og unnusti hennar eru grunuð um að hafa svikið stórfé út úr, hafi greitt 160 þúsund dali, tæpar 18 milljónir króna, á mánuði frá árinu 2004 inn á reikning tölvufyrirtækis parsins.

Að auki hafi maðurinn greitt þeim Helgu Ingvarsdóttur og Vickram Bedi fyrir aðra þjónustu sem átti að tryggja öryggi hans og fjölskyldu hans. Vefurinn Lohud.com hefur eftir Anthony Marraccini, lögreglustjóra í Harrison, að rannsókn á bókhaldi tölvufyrirtækisins hafi leitt þetta í ljós. Alls hafi fyrirtækið fengið greiddar 20 milljónir dala á þessu tímabili, jafnvirði nærri 2,2 milljarða króna.

Saksóknaraembættið í Westchester segir hins vegar, að eins og stendur sé aðeins hægt að sanna fjársvik sem nemi 6 milljónum dala, jafnvirði 665 milljóna króna. Sú fjárhæð kunni þó að hækka eftir því sem rannsókninni vindur fram.

Vefurinn segir, að fórnarlambið, Roger Davidson sem er 58 ára gamall tónlistarmaður og afkomandi stofnenda bandaríska stórfyrirtækisins Schlumberger Ltd., hafi tilnefnt Bedi í stjórn fjölskyldusjóðs, sem réði yfir 60 milljónum dala.

Lohud.com hefur eftir Marraccini, að grunur leiki á að þau Helga og Bedi hafi verið að undirbúa að fara til Íslands þar sem þau grunaði að allt væri að komast upp.

Marraccini segir að eftir að lögregla handtók Helgu á fimmtudag hafi móðir Bedis reynt að fela hann fyrir lögreglu. Hafi hún meðal annars ekið honum á milli staða og Bedi hafi falið sig í farangursgeymslu bílsins, sem var fullur af ferðatöskum. 

Fram kemur, að Bedi eigi að minnsta kosti fimm byggingar í bænum Mount Kisco, þar á meðal skrifstofubyggingu þar sem höfuðstöðvar Datalink eru. Lögreglan segir, að daginn sem Bedi var handtekinn hafi hann flutt eignarhaldið á fasteignunum til fjárfestingarfélags í eigu móður sinnar.   

Lögreglan fann 150 þúsund dali undir rúmi á heimili fólksins. Þá grunar lögreglu að 6 milljónir dala hafi verið teknar út úr bankareikningum Bedi umræddan dag. 

Frétt lohud.com

Heimasíða Rogers Davidsons

Íslensk kona grunuð um stórfelld fjársvik

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert