Hækkun vaxtabóta árangursríkust

Frá fundi samstarfshóps stjórnar og stjórnarandstöðu um tillögurnar í dag.
Frá fundi samstarfshóps stjórnar og stjórnarandstöðu um tillögurnar í dag. mbl.is/Eggert

Hækkun vaxtabóta er árangursríkasta leiðin í glímu við skuldavanda heimilanna, miðað við kostnað. Þetta er ein af niðurstöðum sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna, sem starfað hefur undanfarnar vikur. Niðurstöðurnar voru kynntar í dag. 

Verði ráðist í hækkun vaxtabóta komast 1450 heimili úr vanda, rúm 20% þeirra sem eiga í greiðsluvanda.

Dýrustu leiðirnar sem teknar voru til skoðunar eru 15,5% niðurfærsla skulda og niðurfærsla skulda miðað við upphaflega lánsfjárhæð. Ef fækka á heimilum í vanda með þessum aðferðum hefði það í för með sér 124 milljóna króna kostnað á hvert heimili. Kostnaður við „vaxtabótaleiðina“ yrði hins vegar 1,3 milljónir á heimili.

Starfshópurinn felur stjórnmálamönnum að taka afstöðu til þeirra leiða sem skoðaðar hafa verið.

Heildarskuldbindingar heimila, vegna fasteignalána, hjá Íbúðalánasjóði eru nú 579 milljarðar króna, en um 630 milljarðar hjá bönkum og sparisjóðum. Útistandandi lán hjá lífeyrissjóðum nema 183 milljörðum.

Gengisbundin húsnæðislán er um 117 milljarðar og nema 8,4% af heildarskuldum heimila vegna fasteignalána.

Um 80% þeirra heimila sem nú eiga í vanda stofnuðu til skuldbindinga sinna á árunum 2004-8.

Færri í vanskilum við Íbúðalánasjóð en 1997

Athygli vekur að færri eru í vanskilum við Íbúðalánasjóð en voru árið 1997. Jafnframt eru vanskil í hópi 20% tekjulægstu lántakenda hjá sjóðnum færri en þau voru árið 2004.

Hins vegar eru um 5% lántakenda, alls 3651 manns, í þeirri stöðu að eiga ekki fyrir grunnneyslu. Það er mat sérfræðingahópsins að það sé fjármálastofnana, ríkis eða sveitarfélaga að bjóða þessum hóp upp á húsnæðisúrræði. Þeim verði ekki bjargað með skuldaaðgerðum.

11 mismunandi leiðir

11 mismunandi leiðir til að bregðast við vandanum hafa verið skoðaðar sérstaklega af hópnum. Þessar leiðir eru:

  • Sértæk skuldaaðlögun
  • Flöt lækkun skulda um 15,5%
  • Niðurfærsla skulda m.v. upphaflega lánsfjárhæð
  • Lækkun skulda að 110% verðm.eigna
  • Lækkun skulda að 100% verðm.eigna
  • Stiglækkandi niðurfærsla skulda að 90% af verðm.eigna
  • Hækkun vaxtabóta
  • Lækkun vaxta í 3%
  • Tveggja þrepa nálgun (sölu-/kaupréttur)
  • LÍN leiðin
  • Eignarnám og niðurfærsla skulda með gerðardómi.

Skýrsla sérfræðinganefndarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert