Ekki árás á Alþingi

Atvikin áttu sér stað í mótmælunum í desember 2008.
Atvikin áttu sér stað í mótmælunum í desember 2008. mbl.is/Júlíus

Alþingi lýsir yfir að það telur ekki eðlilegt að líta þannig á atvikin í Alþingishúsinu 8. desember 2008 að þar hafi fólk ráðist á Alþingi svo að því eða sjálfræði þess hafi verið hætta búin svo sem áskilið er í 100. gr. almennra hegningarlaga. Svo segir í nýrri þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi.

Flutningsmaður er Mörður Árnason en með honum eru þingmenn úr öllum flokkum utan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Mörður spurði einmitt forseta Alþingis út í málið fyrir nokkru og fékk svar þar sem vísað var í rannsóknarbeiðni skrifstofustjóra Alþingis.

Reikna má með að af svari forseta Alþingis spretti þingsályktunartillagan. Í greingerð með henni segir: "Skrifstofustjóri Alþingis vísaði meðal annars til þessarar greinar í rannsóknarbeiðni sem hann sendi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins 19. desember 2008 vegna atvikanna. Þótt ákvörðun saksóknara sé sjálfstæð og leiði ekki af rannsóknarbeiðni eða kæru er ljóst að víða er litið svo á að vegna þessa bréfs, auk atriða í svörum forseta Alþingis um málið á vettvangi þingsins eða í almennri umræðu, hafi Alþingi sem slíkt haft af málinu afskipti sem jafngildi því að það telji að hér hafi verið um að ræða árás í skilningi 100. gr., sem beri að refsa fyrir með fangelsisvist, í eitt ár að minnsta kosti."

Vegna undanfara saksóknarinnar og með tilliti til stjórnmálalífs á Íslandi í framtíðinni þykir flutningsmönnum eðlilegt að Alþingi álykti um beitingu 100. gr. almennra hegningarlaga og í ljósi hennar atvikin 8. desember 2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert