„Flugvöllurinn verður hér til 2024“

Ögmundur Jónasson samgönguráðherra.
Ögmundur Jónasson samgönguráðherra. mbl.is/Ómar

„Það sem er ljóst er að flugvöllurinn verður hér, að minnsta kosti til 2024,“ sagði Ögmundur Jónasson samgönguráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi.

„Það verður reist aðstaða fyrir farþega og fyrir starfsfólk sem verður viðunandi. Og er í góðri sátt við þá sem að þessum málum koma. Það fullyrði ég,“ sagði hann.

Þetta kom fram í svari Ögmundar við fyrirspurn Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Jón segir að fréttir um að slá eigi samgöngumiðstöðina út af borðinu og að flugvöllurinn eigi að víkja komi eins og þruma úr heiðskíru lofti.

„Það er kannski mikilvægast við þessar aðstæður að fá skýr svör frá hæstvirtum ráðherra um það hver verða næstu skref í málinu. Nú eru aðstæður þannig að ríkið er eigandi tæplega 50% lands á þessu svæði, þó að Reykjavíkurborg hafi skipulagsvaldið á svæðinu þá á ríkið tæplega helminginn af landsvæðinu,“ segir Jón.

„Ef það er meirihluti hér á þingi fyrir því að flugvöllurinn verði - sem hann á að vera - í Vatnsmýrinni, verður þá ekki algjör pattstaða. Það er að segja að borgin kemst ekkert áfram með sínar hugmyndir á þessu svæði, nema að takmörkuðu leiti. Og þetta verður algjör pattstaða milli ríkis og sveitarfélaga,“ segir hann.

Ögmundur segir að hugmyndin sé sú að fá fjármuni frá lífeyrissjóðunum til að reisa miðstöð vestan við flugvöllinn. Hún verði að uppistöðu til kostuð með þjónustugjöldum.

Hann telur að flugrekendur séu sáttir við að fá ódýrari framkvæmd með því að reisa mannvirki við vesturhluta flugvallarins. „Það var það sem þau lögðu upphaflega upp með. Það voru þeirra óskir,“ segir Ögmundur.

Síðan hafi komið upp hugmyndir að tengja flugvöllinn þjónustu í borginni. „Og ef hann flytti væri þar þjónustumiðstöð fyrir samgöngur hér til frambúðar,“ segir Ögmundur.

„Ég hygg að um þetta gæti orðið góð sátt milli stjórnvalda annars vegar og þeirra sem annast flugrekstur hins vegar. Hvernig á síðan að greiða úr þeim deilum sem uppi eru um framtíð flugvallarins? Það þarf bara að horfa raunsætt á það að við erum ekki á einu máli um það. Og það eru deilur sem ganga þvert á alla stjórnmálaflokka hygg ég. Ég er því eindreginn fylgjandi að flugvöllurinn verði í Vatnsmýri,“ segir Ögmundur og bætir við að þetta sé aðeins hagsmunamál Reykvíkinga heldur landsbyggðarinnar í heild.

„Þegar spurt er um lýðræðislegan vilja í því efni þá á að spyrja þjóðina alla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert