Gengislánafrumvarp lagt fram

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, lagði undir kvöld fram frumvarp um gengisbundin lán þar sem meðal annars er gert ráð fyrir því öll bíla- og húsnæðislán einstaklinga, sem tekin voru á gengisbundnum lánskjörum, verði meðhöndluð í samræmi við nýlegan dóm Hæstaréttar.

Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir því, að sérstök regla gildi um bíla- og fasteignaveðlán einstaklinga, sem feli það í sér að öll slík lán sem hafa að geyma gengistryggingu verði talin í sama flokki óháð því hvernig gengið hefur verið frá skjölum eða millifærslum fjármuna í hverju tilviki.

Í frumvarpinu kemur m.a. fram að fjölmörg dæmi séu um að þeir sem fóru inn í bankana í nákvæmlega sömu erindagjörðum og fengu í raun alveg sömu skilmála eigi á hættu að vera flokkaðir annars vegar með gild erlend lán og hins vegar með ógilda gengistryggingu. Sé því gert ráð fyrir að í flokk ógildra gengistryggðra lána verði jafnframt felld lán sem hugsanlega gætu talist gild erlend lán. 

Fjármálaráðuneytið áætlar, að  tap lánastofnana vegna gengistryggðra bíla- og íbúðalána geti orðið allt að 108 milljarðar króna og þar af eru 50 milljarðar króna vegna einstaklinga og 58 milljarðar vegna fyrirtækja. Áhrif þessa kostnaðar á einstakar lánastofnanir sem ríkissjóður á eignarhlut í yrði, ef einhver væri, fyrst og fremst gagnvart viðskiptabönkunum þremur og þá helst Landsbanka Íslands.

Frumvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert