Höfum skyldum að gegna

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér fannst vera góður samstarfsvilji á þessum fundi. Það eru auðvitað enn skiptar skoðanir um hvaða leiðir menn vilja fara. En þetta er spurning um að ná saman og þessi hópur sem þarna var inni hefur skyldur við fólkið hér úti í samfélaginu að ná saman í þessu máli,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að loknum samráðsfundi um skuldavanda heimilanna, sem fram fór í Þjóðmenningarhúsinu.

Engar tímasetningar liggja fyrir að sögn Jóhönnu. Nú verið farið yfir niðurstöðu fundarins. „Og skoða hvort við getum fundið einhverjar samsettar lausnir miðað við þær tillögur sem liggja fyrir, sem allir geta þá orðið sáttir um.“

Hún segir að engin niðurstaða hafi náðst á þessum fundi um eina ákveðna leið umfram einhverja aðra. Hvað varðar flatar niðurfærslur, þá sé það leið sem sé nánast útilokað að fara nema með samningum á milli aðila. Hún myndi kosta ríkissjóð 70 milljarða kr. „Við erum að glíma við fjárlög og niðurskurð þar upp á 33 [milljarða kr.]. Menn geta borið saman þessar stærðir, en það eru margar aðrar leiðir sem eru þarna fyrir hendi til að ná utan um þetta.“

Aðspurð segir hún að mikið hafi verið talað fyrir almennri vaxtalækkun á fundinum. „Maður horfir töluvert til lífeyrissjóðanna í því sambandi. Vextir af fasteignalánum og húsnæðislánum eru mjög háir miðað við aðstæður sem eru í samfélaginu í dag,“ sagði hún. Lífeyrissjóðirnir geti átt ákveðið frumkvæði í því sambandi.

„Síðan er alveg ljóst að það er þarna töluvert stór hópur sem er með yfirveðsettar eignir, en hann þarf að skoða vel. Vegna þess að það eru í þeim hópi aðilar sem eru með mjög háar tekjur og kannski eignir aðrar sem ekkert eru veðsettar, því við erum bara að tala um fasteignalán. Þannig að það er mjög erfitt að fara þá leið nema skoða hana frekar, þó hún komi vissulega vel til greina,“ segir forsætisráðherra. 

Ekki mikill tími til stefnu

„Mér finnst við ekki hafa langan tíma. Mér finnst ekki við geta farið að setja niður einhvern hóp sem á að starfa í nokkrar vikur í viðbót. Það er kominn tími til að fara að fá lausn í þetta. Nú mun ég vinna í því með fjármálaráðherra að fara yfir málið og skoða hvernig við tökum þessa vinnu áfram. Og setjum saman, þá með þessum aðilum sem hér eru, samsettar lausnir sem við metum að hægt sé að ná saman um. En það verður aldrei hægt að ná saman nema allir gefi eftir, þ.e.a.s. þeir sem lengst vilja ganga og þeir sem styst vilja ganga mætist einhversstaðar á miðri leið.“

Aðspurð hvort niðurstaða muni liggja fyrir jól segir Jóhanna að vonandi menn geti séð til lands í þessum mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert