Kirkjan ræðir um rannsókn

Hluti þingfulltrúa við setningu kirkjuþings í morgun.
Hluti þingfulltrúa við setningu kirkjuþings í morgun. mbl.is/Kristinn

Kirkjuþing var sett í morgun í Grensáskirkju. Þar á meðal annars að ræða um hlutverk og stöðu þjóðkirkjunnar. Þá liggur fyrir þinginu tillaga um  starfsreglum um rannsóknarnefnd, sem fjalli um viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni biskup um kynferðisbrot.

„Fyrir þessu kirkjuþingi liggur að setja á stofn rannsóknarnefnd um viðbrögð og starfshætti kirkjunnar í málum sem við vildum öll að væru kirkjunni fjarri. En veruleikinn kallar og við honum verður að bregðast. Gerum það af sannsýni, umburðarlyndi, velvild og virðuleika – og horfumst í augu við það sem var og verður að breytast," sagði Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, þegar hann setti þingið.

Samkvæmt tillögunni verður kosin þriggja manna rannsóknarnefnd til að rannsaka alla starfshætti og viðbrögð þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni. Á nefndin m.a. að leggja mat á hvort um mistök, vanrækslu eða vísvitandi þöggun eða tilraun til þöggunar hafi verið að ræða af hálfu vígðra þjóna og starfsmanna kirkjunnar, eða annarra þeirra sem gegnt hafa trúnaðarstörfum í þágu kirkjunnar, eftir að ásakanir um kynferðisbrot voru komnar fram og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.

Fjöldi annarra tillagna liggur fyrir þinginu, m.a. tillaga um að láta kanna viðhorf og traust fólks til stofnana og starfsþátta þjóðkirkjunnar og önnur um að efnt verði til ítarlegrar kynningar á starfsháttum, skipulagi og starfi þjóðkirkjunnar á meðal almennings.

Ekkert samráð við kirkjuna

Í setningarræðu sinni fjallaði Pétur Kr. Hafstein m.a. um breytingar á hjúskaparlögum, sem Alþingi gerði í sumar. Sagði hann, að  þótt þessi lagasetning snerti að sjálfsögðu kenningu og helgisiði kirkjunnar hefði verið til hennar stofnað án nokkurs samráðs við þjóðkirkjuna.

„Þetta er í rauninni einsdæmi í samskiptum ríkis og kirkju og kann að vera til marks um kaldari vinda í garð kirkjunnar en áður þekktust. Um hitt blandast engum hugur að löggjafinn ræður hinni lagalegu skilgreiningu hjúskapar og þjóðkirkjan virðir að sjálfsögðu landslög," sagði Pétur.

Hann sagði að Kirkjuþing fengi nú það verkefni að breyta samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar til samræmis við hina breyttu löggjöf og gerði það vafalaust með reisn og sóma.

„Margir hafa sjálfsagt átt von á því – og jafnvel bundið við það vonir – að þetta verkefni yrði þjóðkirkjunni ofviða. Sú er ekki raunin og kirkjan getur fyllilega tekist á við breytta skilgreiningu hjónabandsins í lögum. Það gerir hún að sjálfsögðu með þeim kærleika og umburðarlyndi sem er undirstaða kristinnar trúar um leið og samviskufrelsi einstakra þjóna kirkjunnar verður virt. Það er mikilvægt að þjóðkirkjan gangi hér fram með jákvæðum og opnum huga og lýsi fullum og óskoruðum vilja sínum til að hafa áfram vígsluvald og stuðla þannig að áframhaldandi samfylgd kirkju og þjóðar í hjúskaparmálum. Hinu mega menn svo ekki gleyma að áður en til þessarar breytingar á hjúskaparlögum kom hafði þjóðkirkjan íslenska þrátt fyrir allt þegar skipað sér í hóp þeirra lútersku kirkna á heimsbyggðinni sem lengst gengu í því að virða stöðu og réttindi samkynhneigðra," sagði Pétur.

Ræða Péturs Kr. Hafstein

Vefur kirkjuþings

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert