Lét hjólið prjóna en fær samt bætur

Hæstiréttur hefur dæmt að tryggingafélag skuli greiða karlmanni, sem slasaðist í mótorhjólaslysi, bætur. Maðurinn þarf hins vegar að bera þriðjung tjónsins sjálfur vegna þess að hann hafði látið hjólið prjóna þegar slysið varð. Héraðsdómur Reykjaness hafði áður sýknað tryggingafélagið af kröfu mannsins.

Slysið varð í Reykjanesbæ árið 2004 þegar maðurinn var 22 ára.  Maðurinn og vinur hans óku niður eftir Hafnargötu í átt að hringtorgi, um 130 metra vegalengd. Sagðist maðurinn hafa látið hjólið prjóna og ekið þannig áfram einhverja tugi metra. Maðurinn varð tvísaga um hraðann og sagðist í skýrslu fyrir dómi hafa ekið á 50 km hraða en í skýrslu til tryggingafélagsins sagðist hann hafa ekið á 60 til 70 kílómetra hraða.

Framburður mannsins var einnig nokkuð á reiki um það sem næst gerðist. Í lögregluskýrslu er haft eftir honum að eldsneytisgjöf bifhjólsins hafi fests í botni og að hann hafi í framhaldinu misst stjórn á hjólinu. Í skýrslu, sem fylgdi bréfi lögmanns hans til tryggingafélagsins, sagðist hann hafa settframhjólið niður aftur og bremsað með bæði aftur- og frambremsu og þá „runnið til í vettlingnum" og gefið bensíngjöfina í botn óviljandi með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á hjólinu. Í stefnu málsins  er því á hinn bóginn haldið fram að maðurinn hafi fest hanska sinn í bensíngjöf hjólsins með þeim afleiðingum að í stað þess að bremsa hafi hann gefið hjólinu aukið bensín og þannig misst stjórn á því.

Ekki var deilt um, að maðurinn ók á umferðareyju við hringtorgið, féll af hjólinu og slasaðist.

Hæstiréttur segir, að fyrir liggi að maðurinn gerði sér að leik að láta bifhjól sitt „prjóna“. Slíkt aksturslag við þessar aðstæður teljist fela í sér stórkostlegt gáleysi. Eru því bætur til hans lækkaðar og honum gert að bera sjálfur ⅓ af tjóni sínu vegna slyssins.

Kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að tryggingafélagið Sjóvá-Almennar skuli greiða manninum 15,1 milljón króna í bætur en hann hlaut 25% örorku af völdum slyssins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert