Nýr ferðamálafulltrúi í New York

Á Broadway í New York City. Sif Einarsdóttir Gústavsson tekur …
Á Broadway í New York City. Sif Einarsdóttir Gústavsson tekur við starfi ferðamálafulltrúa þar í borg. Reuters

Sif Einarsdóttir Gústavsson hefur verið ráðin til Íslandsstofu sem ferðamálafulltrúi á viðskiptaskrifstofu Íslands í New York. Hún hefur störf í ársbyrjun 2011. Faðir Sifjar, Einar Gústavsson, hefur verið umdæmisstjóri í Ameríku en hættir nú fyrir aldurs sakir.

Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, sagði að um 160 manns hafi sótt um starfið. Þar af voru rúmlega 60 Bandaríkjamenn og tæplega 100 Íslendingar. Mbl.is hefur orðið vart við gagnrýni á að dóttir sé hér að taka við starfi sem faðir hennar hefur lengi gegnt.

Jón sagði að samkvæmt lögum um Íslandsstofu ráði framkvæmdastjóri allt starfsfólk. „Konan er ekkert skyld mér, ég hafði aldrei séð hana fyrr en hún sótti um þetta starf,“ sagði Jón. Hann sagði að starfið hafi verið auglýst bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. 

„Hagvangur, sem auglýsti starfið hér heima, valdi 20 umsækjendur. Síðan vorum við þrír í valnefndinni. Ég sem framkvæmdastjóri, Jón Gunnar Borgþórsson, starfsmaður ferðaþjónustusviðs Íslandsstofu, og Hlynur Guðjónsson, viðskiptafulltrúi í New York sem verður yfirmaður þessa starfsmanns,“ sagði Jón.

Hann sagði að þeir hafi valið sjö umsækjendur sem kalla átti í viðtal. Þar af voru þrír Bandaríkjamenn og fjórir Íslendingar. Tveir Bandaríkjamenn féllu síðan út í ferlinu en sá þriðji, sem er kona, og fjórir Íslendingar voru teknir í viðtöl.

„Þegar upp var staðið stóð valið á milli tveggja kvenna, Sifjar og þessarar bandarísku konu. Þær fullnægðu öllum skilyrðum sem við höfðum sett um menntun og starfsreynslu. Báðar höfðu einnig unnið fyrir erlend ferðamálaráð. Sú ameríska hafði unnið fyrir ferðamálaráð Bretlands í New York og Sif fyrir belgíska ferðamálaráðið í New York.“

Jón sagði að Sif hafi haft það fram yfir bandarísku konuna að hún þekkti Ísland betur og það hafi ráðið úrslitum um að hún varð fyrir valin. Undanfarið hefur Sif starfað fyrir ferðaskrifstofuna Iceland Travel, einnig með áherslu á Ameríkumarkað.

Sif er að ljúka meistaragráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá HÍ og er með bandarískan ríkisborgararétt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert