„Við erum hætt að bíða“

Stúdíó Sýrland hefur í samstarfi við Vinnumálastofnun boðið atvinnulausu fólki að sitja svokallað virkninámskeið þar sem kennt er nánast allt sem viðkemur kvikmyndagerð. Tveir hópar, yngri og eldri, útskrifuðust þaðan í dag og frumsýndu af því tilefni afrakstur námskeiðsins, stuttmyndir. Þátttakendur sáu alfarið um gerð myndanna, allt frá handritskrifum að hljóðsetningu, en langflestir höfðu litla eða enga reynslu af kvikmyndageiranum.

Námskeiðið hefur nú þegar skilað ætluðum árangri. Eldri hópurinn, sem skipaður er 18 manns á aldrinum 26 til 64 ára, stefnir á að stofna nýtt fyrirtæki og hefur einn aðalleikarinn nú þegar hreppt hlutverk í Áramótaskaupinu og Hlemma vídeo. „Við ákváðum þegar lengra var komið að nota alla þessa hæfileika sem voru samankomnir á einum stað. Við erum til dæmis með lögfræðinga, viðskiptafræðinga, arkitekta, kennara, myndlistarfólk, margmiðlunarfólk, dansara, tónlistarmenn og öll þau tæki sem fylgir þessum hópum. Það var ekkert annað að gera, við vorum með fyrirtæki,“ segir Inga Helgadóttir meðlimur eldri hópsins.

Hið nýja fyrirtæki nefnist Divine Production, en nafnið er sótt í titil stuttmyndarinnar sem hópurinn framleiddi á námskeiðinu: Divine intervention, eða himneskt inngrip. „Við ætlum að hittast í kvöld og þá er fyrsti vinnufundur vegna fyrirtækisins. Við ætlum ekki að leyfa neinum að stoppa og hugsa, við erum lögð af stað.“
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert