Formaður Framsóknar segir ráðist að grunnstoðum

Sigmundur Davíð í ræðustól á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins á Húsavík …
Sigmundur Davíð í ræðustól á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins á Húsavík í dag. Mynd: Hafþór Hreiðarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í ræðu sinni á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins á Húsavík í dag að Ísland hefði allt til að bera til að vera kjörlendi fjárfestinga og að kostnaðurinn við núverandi ríkisstjórn hlypi á hundruðum milljóna króna.

Hann sagði að utanaðkomandi ógn steðjaði að Þingeyingum. Sú ógn væri fyrst og fremst pólitísk, stjórnvöld hefðu hvað eftir annað brugðið fæti fyrir uppbyggingarstarf Þingeyinga.

„Lengra gengið en nokkur hefði ímyndað sér“

„Steininn hefur oft tekið úr í þeim efnum en nú hefur verið gengið lengra en nokkur hefði ímyndað sér í því að vega að byggð á norðausturhorni landsins. Í gegnum fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er nú ráðist að grunnstoðum samfélagsins hér. Stjórnsýslunni, menntun og alveg sérstaklega að heilbrigðisþjónustu. Þótt menn hefðu lagt sig eftir því hefði varla verið hægt að finna leið sem grefur jafn mikið undan þessu samfélag,“ sagði Sigmundur og sagði að með niðurskurðinum væri vegið að öryggi íbúanna, efnahag sveitarfélagsins, aðstöðu til uppbyggingar, atvinnustigi, búsetuþróun og nánast öllum sviðum mannlífs.
Það sama ætti við á mörgum stöðum vítt og breytt um landið.

„Raunar er ekki bara um niðurskurð að ræða,“ sagði Sigmundur. 
„Með tillögum er verið að innleiða algjöra kerfisbreytingu í gegnum fjárlagafrumvarpið. Þau vinnubrögð eru algjörlega óásættanleg.“

Hann sagði að framsóknarmenn myndu beita sér að öllu afli gegn því að heilbrigðisþjónustunni yrði kollvarpað.

Kjörlendi fjárfestingar

Sigmundur Davíð sagði allar aðstæður til staðar til staðar til að gera Ísland að kjörlendi fjárfestingar. „Lágt skráður gjaldmiðill, þróaðir innviðir, öryggi, nægt vinnuafl, landfræðileg staðsetning, umhverfisvæn orka og svo mætti lengi telja. Kostnaðurinn við þessa vinstristjórn án miðjutengingar nemur þegar hundruðum milljarða króna. “
 

„Þurfum að verja og leggja rækt við auðlindir“

Í ræðu sinni ræddi Sigmundur um framtíðarþróun heimsins. Sama hver hún yrði, þyrftu jarðarbúar ávallt mat, hreint vatn og orku. Það væru helstu auðlindir Íslendinga. „Ekki aðeins framleiðum við matvæli heldur besta form næringar, prótín. Nýleg rannsókn sýnir að á Íslandi er til jafnmikið af hreinu nýtanlegu vatni og í stærstu og fjölmennustu löndum Evrópu. Svo lengi sem lögmál eðlisfræðinnar halda verður orka ekki til úr engu en af henni eigum við mikið, ekki í formi kola sem eyðast og menga andrúmsloftið, heldur hreinni endurnýjanlegri orku. “

Sigmundur sagði framtíð þjóðarinnar undir því komna að okkur takist að verja þessar auðlindir og leggja rækt við þær.

„Við erum ekki nema rúmlega 300.000 manna þjóð og höfum byggt upp sterka innviði á 100 árum og getum skapað mikil verðmæti innanlands.
Það sem af er þessu ári höfum við flutt út 27% meira en við flytjum inn.
Það er nánast einstakt á vesturlöndum. Fjölskyldufyrirtækið Ísland er rekið með miklum hagnaði. Það ætti að vera nóg til skiptanna,“ sagði Sigmundur og spurði hvernig það mætti vera að í slíku þjóðfélagi standi fólk í biðröð eftir matargjöfum.

„Höfum við ekki efni á að mennta þjóðina?“

„Hvernig stendur á því að stjórnvöld í slíku landi telja sig ekki geta veitt öllum landsmönnum gott aðgengi að mikilvægustu heilbrigðisþjónustu?
Hvers vegna þarf svona fámenn þjóð, sem á svona mikið, að klípa af lágum tekjum þeirra sem komnir eru á eftirlaun eða geta ekki unnið vegna örorku.  Höfum við ekki efni á að mennta þjóðina svo að hún geti skapað meiri verðmæti í framtíðinni? Hvers vegna flytja 10 manns á dag burt úr landinu í leit að vinnu og betri lífskjörum'“ spurði Sigmundur.

Eitthvað er að í því hvernig við nýtum sameiginleg verðmæti okkar og við erum því miður ekki að færast í rétta átt í þeim efnum.“

Hann sagði vandann liggja í skuldunum, það að draga úr þeim væri forsenda þess að íslenska þjóðin „geti haldið áfram uppbyggingarstarfinu og tryggt velferð allra.“

„Síðustu 2 ára hafa farið til spillis“

„En við vinnum ekki á skuldunum með því að vega að grunnstoðum samfélagsins og gera það verr í stakk búið til að skapa verðmæti. Við vinnum aðeins á skuldavandanum með því að skapa verðmæti. Þess vegna er hræðilegt að síðastliðin 2 ár, sem hefðu átt að geta verið ár tækifæranna á svo margan hátt, hafi farið til spillis. “

„Efniviðurinn er allur til staðar og dæmið getur gengið hratt upp svo framarlega sem við beitum hinni skynsömu miðjuleið.

En við verðum að gera okkur grein fyrir því að það eru ekki allir sammála okkur. Margir, og reyndar meirihlutinn verður aldrei sammála Framsóknarflokknum, eins undarlegt og það kann nú að virðast.
En við eigum ekki að láta það fólk sem ekki er sammála okkur ráða því hvað við erum,“ sagði Sigmundur Davíð í lok ræðu sinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert