Prófastsdæmum fækkað

Kirkjuþing 2010 var haldið í Grensáskirkju í Reykjavík.
Kirkjuþing 2010 var haldið í Grensáskirkju í Reykjavík.

Kirkjuþing hefur samþykkt að efla samstarf með samstarfssvæðum sókna og verður þeim komið á fyrir árslok 2011. Þá var ákveðið að fækka prófastsdæmum úr tólf í níu. Þingið fjallaði um fjármál kirkjunnar og lýsti áhyggjum sínum vegna niðurskurðar sem vegi að grunnþjónustu kirkjunnar um allt land. 

Borgarfjarðarprófastsdæmi og Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi sameinast í Vesturlandsprófastsdæmi og Eyjafjarðaprófastsdæmi og Þingeyjarprófastsdæmi sameinast í Eyjafjarða- og Þingeyjarprófastsdæmi frá 30. nóvember 2010. Múlaprófastsdæmi og Austfjarðarprófastsdæmi sameinast í Austurlandsprófastsdæmi frá 1. nóvember 2011.

Kirkjuþinginu lauk í Grensáskirkju á föstudaginn. Alls voru 38 mál lögð fram. Þingið afgreiddi þau með 11 starfsreglum og 19 þingsályktunum.

Þriggja manna rannsóknarnefnd var kosin sem á að rannsaka alla starfshætti og viðbrögð þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni biskupi um kynferðisbrot. 

Þingið ályktaði um kirkju, þjóð og framtíð og skipaði starfshóp sem huga skal að þróun samfylgdar og tengsla ríkis og kirkju. Það skipaði einnig milliþinganefnd sem á að fara yfir frumvarp til nýrra þjóðkirkulaga. Loks var kjörið nýtt kirkjuráð sem situr næstu fjögur árin.

Nánar á vef kirkjuþings.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert