Sakar Barnaverndarstofu um að leka póstunum

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sakar Barnaverndarstofu um að hafa lekið tölvupósti milli sín og félagsmálaráðherra um meðferðarheimilið Árbót í Fréttablaðið. Hann segir að faglega hafi verið staðið að málinu af hálfu stjórnvalda.

Ólöf Nordal alþingismaður spurði Steingrím á Alþingi í dag um bætur sem ríkið greiddi rekstraraðilum á Árbót eftir að samningi um rekstur heimilisins var sagt upp í lok síðasta árs. Ríkið greiddi 30 milljónir, en í Fréttablaðinu í dag kom fram að forstjóri Barnaverndarstofu taldi að engar forsendur hefðu verið fyrir þessum greiðslum.

Ekki ótvírætt uppsagnarákvæði

Steingrímur sagði að málið væri á forræði félagsmálaráðuneytisins. Barnaverndarstofu og rekstraraðilum heimilisins hefði mistekist að ná samkomulagi um lyktir málsins. „Barnaverndarstofa óskaði þá sjálf eftir því að félagsmálaráðuneytið yfirtæki það mál og reyndi að leiða það til lykta. Það gerði síðan félagsmálaráðuneytið. Það var að tillögu embættismanna og lögfræðinga þess sem gengið var til samkomulags við rekstraraðilana um uppgjör á málinu. Það var í einu og öllu farið að því sem eðlilegt var.

Það er þannig með þessa samninga að í þeim er ekki ótvírætt uppsagnarákvæði heldur endurskoðunarákvæði. Þetta viðurkenndi Barnaverndarstofa í reynd með því að ganga til viðræðna við rekstaraðilana í framhaldi af því að hafa tilkynnt þeim um uppsögn í lok árs,“ sagði Steingrímur.

Steingrímur sagði að samningur hefði verið kynntur fyrir fjármálaráðuneytinu sem hefði samþykkt hann. Málið hefði verið kynnt í ríkisstjórn og óskað hefði verið eftir fjárheimild í aukafjárlögum.

Steingrímur sagði að heimilið hefði verið í fullum rekstri fram til áramóta og því ekki annað hægt en að koma til móts við rekstraraðilana vegna þess kostnaðar sem þeir sátu uppi með. „Ég tel að það hafi verið eðlilega unnið að þessu máli á allan hátt og í samræmi við góðar stjórnsýsluvenjur.


Tölvupóstur sá sem ég ritaði í janúarmánuði var vegna þess að við höfðum áhyggjur af því í fjármálaráðuneytinu að ef illa tækist til í þessu máli gæti verið um stóraukinn viðbótarkostnað að ræða sem við vildum sjá fagleg rök fyrir áður en lengra væri gengið.“


Ólöf benti á að það væru góðir stjórnsýsluhættir að leita til þeirra sem best þekktu til um svona mál eins og ríkislögmanns. Hún spurði hvort það væri svo að fjármálaráðherra gæti opnað ríkissjóð til að leysa þetta mál en ekki í öðrum tilvikum. „Ég get með engu móti fallist á að sú aðferðarfræði sem þarna hefur verið beitt falli undir skilgreiningu á góðum stjórnsýsluháttum.“


Steingrímur sagði betra að leysa svona erfið mál með samkomulagi, en að leysa þau fyrir dómstólum. Hann sagði að málið hefði aldrei verið á því stigi að það þyrfti að leita álits ríkislögmanns. „Áhyggjur okkar í janúarmánuði sneri að því ef þarna væri enn eina ferðina verið að stofna til kostnaðar vegna þess að uppbygging margra meðferðarheimila á undanförnum árum, ef menn kynna sér þá sögu, hefur ekki verið útlátalaus fyrir ríkið, þar sem hvert heimilið á fætur öðru hefur verið sett á stofn, sum komust aldrei í rekstur áður en þeim var lokað aftur. Það var ástæða til að biðja um faglegan rökstuðning og fá öll gögn fram í málinu. Það var það sem ég var í mínu einkabréfi til félagsmálaráðherra var að biðja um áður en lengra yrði haldið.


Það er svo önnur saga hvernig sá einkapóstur milli okkar félagsmálaráðherra er allt í einu kominn í blöðin, að því er virðist í gegnum Barnaverndarstofu. Það er örugglega þeirra framlag til að reyna að skapa sátt og frið um þennan málaflokk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert