Fréttaskýring: Einu sinni áður samið um greiðslu bóta

Meðferðarheimilið á Árbót
Meðferðarheimilið á Árbót mbl.is/ÞÖK

Af þeim sex meðferðarheimilum sem lokað hefur verið á síðustu árum er aðeins eitt dæmi um að greiddar hafi verið bætur í kjölfar þess að samningum var sagt upp, en það er þegar heimilinu á Torfastöðum var lokað árið 2005. Í einu málinu fóru rekstraraðilar í mál við ríkið en töpuðu því á báðum dómstigum.

Félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra beittu sér fyrir því að gerður var samningur við rekstraraðila á Árbót eftir að Barnaverndarstofa sagði þjónustusamningi upp um síðustu áramót. Það var gert vegna þess að nýting á heimilinu var óviðunandi í kjölfar þess að starfsmaður heimilisins braut gegn stúlkum á heimilinu. Barnaverndarstofa óskaði eftir heimild frá félagsmálaráðuneytinu til að segja upp samningnum. Ráðuneytið féllst á uppsögnina, „að vel athuguðu máli,“ eins og segir í bréfi til Barnaverndarstofu, en þar eru ekki settir neinir fyrirvarar við uppsögnina. Hins vegar segir félagsmálaráðuneytið í yfirlýsingu sem það sendi frá sér í fyrradag að uppsögn samningsins „hafi verið umdeilanleg“.

Þegar þjónustusamningi við meðferðarheimili er sagt upp hafa farið fram viðræður um uppgjör, en þær hafa að jafnaði leitt til þess að heimilin hafa hætt starfsemi áður en sex mánaða uppsagnarfrestur er runninn út. Ríkið hefur þá í sumum tilvikum greitt raunkostnað eins og laun starfsmanna á uppsagnarfresti og stundum keypt innbú sem hefur þá gengið til annarra meðferðarheimila.

Kostnaður við uppgjör fimm heimila sem lokað var á árunum 1996-2008 var 0-16 milljónir. Í öllum tilvikum var verið að greiða fyrir útlagðan kostnað. Þeir sem ráku Torfastaðaheimilið sögðu samningnum upp árið 2005 og starfaði það út uppsagnarfrestinn. Í kjölfarið gerði þáverandi félagsmálaráðherra samning sem fól í sér að rekstraraðilar fengu greiddar 20,6 milljónir á núvirði þrátt fyrir að ríkislögmaður hefði skilað áliti um að ríkinu bæri engin skylda til að greiða þetta.

Í yfirlýsingu félagsmálaráðuneytisins um málið frá því í fyrradag segir að meðferðarheimilið Árbót hafi verið starfrækt allan uppsagnarfrestinn og þótti sanngjarnt að taka tillit til þess við gerð samkomulagsins. „Með samkomulaginu var að hluta til komið til móts við óskir um bætur vegna eftirstöðva skulda sem stofnað hafði verið til vegna uppbyggingar aðstöðu á Árbót og kostnaðar við aðlögun húsakosts að nýjum notum.“

Í viðræðum Barnaverndarstofu við rekstraraðila Árbótar óskaði stofnunin eftir því að lögð yrðu fram gögn um kostnað rekstraraðila sem tengdust uppbyggingu meðferðarheimilisins, en þau voru ekki lögð fram. Í minnisblaði lögfræðings Barnaverndarstofu segir hins vegar að meðferðarheimilið Árbót ehf. hafi á árunum 2006-08 greitt rúmlega 54 milljónir í húsaleigu til Bragarbótar ehf. sem átti húseignirnar á Árbót. Áætluð húsaleiga vegna 2009 er 20,5 milljónir. Lögfræðingurinn segir að greidd húsaleiga sl. 4 ár hafi því getað greitt upp öll áhvílandi lán Bragarbótar sem rekstraraðilar telja að séu tilkomin vegna fjárfestinga vegna meðferðarheimilisins.

Lögfræðingurinn telur „erfitt að sjá að samkomulagið [um að greiða rekstraraðilum Árbótar 30 milljónir til viðbótar] sé í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar eða vandaða stjórnsýsluhætti.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert