Fleiri konur saka Gunnar um kynferðisbrot

Hús Krossins.
Hús Krossins.

Sjötta konan sem sakar Gunnar Þorsteinsson, forstöðumann Krossins um kynferðisbrot gegn sér, er nú komin fram. Þetta staðfestir
Ásta Knútsdóttir sem skrifaði bréf til stjórnar trúfélagsins með vitnisburði fimm kvenna um meint kynferðisbrot Gunnars.

Ásta segist geta staðfest að sjötta konan hafi nú stigið fram og verði vitnisburður hennar birtur á næstu dögum. Hún hafi þó heyrt af fleiri konum með svipaða reynslu. Segir hún af konunum sex hafi sú yngsta þeirra verið 13 ára þegar brotin hafi átt að fara fram en í dag séu þær á aldrinum 28-46 ára.

„Til þess að taka af allan vafa þá er enginn að tala um nauðganir. Við erum að tala um snertingar inn fyrir föt. Svoleiðis snertingar gegn unglingum eða ólögráða einstaklingum það heitir bara ofbeldi og þess vegna tölum við um kynferðisofbeldi,“ segir Ásta.

Sjálf segist Ásta ekki vera á meðal meintra fórnarlamba Gunnars en hún hafi sjálf orðið fyrir kynferðisofbeldi sem barn og þekki því þá sáru göngu að rjúfa þagnarmúrinn sem því fylgir að koma fram með sannleikann í dagsljósið, þess þá heldur þegar um sé að ræða svo þekktan og valdamikinn mann.

Segir ásakanir safnaðarpólitískar

Gunnar Þorsteinsson birti í gær yfirlýsingu á heimasíðu Krossins þar sem hann ber af sér sakirnar og leiðir að því líkum að ástæður þeirra séu safnaðarpólitískar.

„Því miður er mér kunnugt um að hópur af fólki hefur um skeið unnið að því að leita að ávirðingum á mig með logandi ljósi.  Menn hafa velt hverjum steini og uppskeran er komin í hús. Hópur sem tilheyrir nýju trúfélagi í Reykjavík  hefur náð góðum árangri með ófrægingarherferð þessari.  Þú spyrð hvort þetta geti verið, já, því miður, ég hef staðfestingu á því,“ segir í yfirlýsingu Gunnars.

Ásta segir ekkert sem renni stoðum undir þær fullyrðingar Gunnars að ásakanirnar séu runnar undan rótum annars trúfélags. Konurnar sem stigið hafi fram eigi það eitt sameiginlegt að hafa tilheyrt Krossinum á einhverjum tímapunkti.

„Þetta er hans leið til þess að draga athyglina frá sér og sínum gjörðum. Þetta snýst ekkert um kirkjur eða kirkjupólitík, hjónaskilnað eða bókina hennar Jónínu Ben. Þetta snýst bara um gjörðir Gunnars Þorsteinssonar og brotin hans. Ekkert annað,“ segir Ásta. 

Yfirlýsing fyrrverandi eiginkonu Gunnars

Ingibjörg Guðnadóttir, fyrrverandi eiginkona Gunnars Þorsteinssonar og systir tveggja kvennanna sem bera Gunnar sökum, sendi fjölmiðlum yfirlýsingu þar sem hún hafnar þeim ásökunum sem fyrrverandi eiginmaður hennar hefur verið borinn.

Yfirlýsing Ingibjargar er svohljóðandi:

„Ég Ingibjörg Guðnadóttir, sendi hér með yfirlýsingu, varandi þær ásakanir á fyrrverandi mann minn Gunnar Þorsteinsson til 38 ára, að hann hafi kynferðislega áreitt ungar stúlkur. ég vil taka það skýrt fram að á þessum árum, hefi ég ALDREI séð neitt sem gæti gefið það í skyn. Hann hefur verið frábær faðir og séð vel um okkur, mig og börnin sín, sem og systkinin mín, og reynst þeim sem faðir.

Mér finnst þetta viðbjóðsleg ásökun, og vona ég að fólk taki ekki mark á þessum ásökunum.

kv.
Ingibjörg Guðnadóttir.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert