Ræða jöfnun lífeyrisréttinda

Lífeyrismál er eitt af því sem rætt er í tengslum …
Lífeyrismál er eitt af því sem rætt er í tengslum við gerð nýrra kjarasamninga. Skapti Hallgrímsson

Forystumenn á vinnumarkaði hafa að undanförnu rætt leiðir til að jafna lífeyrisréttindi. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir að ef tækist að stíga skref í þessa átt myndi það greiða fyrir kjarasamningum.

Samkvæmt núverandi kerfi greiða vinnuveitendur 8% iðgjald í lífeyrissjóð á almennum markaði og launþegar greiða 4%. Ríki og sveitarfélög greiða hins vegar 11,5% iðgjald. Iðgjaldið endurspeglar þau réttindi sem launþegar fá þegar þeir taka út lífeyri. Til viðbótar eru réttindi í opinberum lífeyrissjóðum tryggð þannig að ekki má skerða þau, en lífeyrisréttindi á almennum markaði fara eftir ávöxtun sjóðanna og eru skert ef eign sjóðanna dugar ekki fyrir réttindum.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að eitt af því sem hafi verið fest á blað í stöðugleikasáttmálanum margumtalaða var að jafna lífeyrisréttindi. Menn hafi verið að ræða saman mjög opinskátt um þessa hluti að undanförnu. Hann segir að það sé allt undir. Hann segir að ríkið og sveitarfélögin hafi tekið þátt í þessum viðræðum.

Guðmundur Gunnarsson segir að allir geri sér grein fyrir því að ekki verði hægt að jafna lífeyriskjör á einu ári og því velti menn fyrir sér hvort hægt sé að setja fram áætlun til t.d. 10 ára.

Halli er á A-deild Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna og segir Guðmundur að það sé ekki hægt að fresta því öllu lengur að taka á þessum vanda, en samkvæmt gildandi lögum á að taka á þessari stöðu með því að ríkið hækki iðgjaldið sem þýðir að aðrir launþegar þurfi að taka á sig skattahækkun til að borga þetta. Guðmundur segir að ef menn taki ekki á þessum vanda sé hætta á að hér skapist "franskt ástand" á næstu árum, en þar vísar hann til mótmæla sem urðu í Frakklandi í haust vegna lífeyrismála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert