Jóhanna hótaði afsögn

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði nokkrum þingmönnum Vinstri grænna í júlí í fyrra að hún væri að missa þolinmæðina og að hún myndi segja af sér innan fárra daga ef þeir styddu ekki samkomulag sem náðst hafði í Icesave-málinu.

Þetta kemur fram í sendiráðsskýrslu frá bandaríska sendiráðinu í Reykjavík, sem Fréttablaðið birtir úr í dag. Í skýrslunni er vísað til orða, sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hafi látið falla í samtali við breska sendiherrann á Íslandi. 

Er Össur sagður hafa talið að þessir úrslitakostir Jóhönnu til VG ásamt viðaukum við samninginn myndu duga til að bæta við atkvæðum til að ná naumum meirihluta fyrir samkomulaginu á Alþingi.

Í annarri skýrslu, sem blaðið vitnar til og fjallar um fund Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, með Neils Klopfenstein, sendiráðunauti,  kemur fram að bandarísku sendiráðsstarfsmennirnir hafi efast um túlkun Steingríms á framgangi viðræðna um Icesave. Breski sendiherrann hafi dregið upp mun dekkri mynd af þeim í viðræðum. Hann segði meðal annars að þeir hefðu uppi barnalegar áætlanir um endurgreiðslu Icesave.

Fréttablaðið vitnar í dag í sendiráðsskýrslur, sem lekið var til vefjarins WikiLeaks en hafa ekki verið birtar á vefnum enn. Er þar meðal annars fjallað um þá skoðun Carol van Voorst, þáverandi sendiherra, haustið 2008, að íslensk stjórnvöld hefðu ekki látið reyna að fullu á hvort Bandaríkin gætu hlaupið undir bagga. Tilefnið voru fréttir um hugsanlega lánveitingu til Íslendinga frá Rússum.

Þá er fjallað um sýn sendiráðsmanna á viðbrögð Íslendinga við því þegar bandaríska varnarliðið hvarf héðan árið 2006. Segir Van Voorst m.a. að íslenskir ráðamenn hafi verið mjög reiðir vegna þessarar ákvörðunar, einkum stjórnmálamenn á hægri væng Sjálfstæðisflokksins. Er Björn Bjarnason nefndur. Það fari í taugarnar á þeim hve Geir H. Haarde, sem þá var nýtekinn við sem formaður Sjálfstæðisflokksins af Davíð Oddssyni, var með mikinn sáttatón gagnvart Bandaríkjunum eftir að tilkynnt var um brotthvarf hersins.    

Þá er m.a. vitnað í sendiráðspóst þar sem kemur meðal annars fram,  Davíð Oddsson hafi á fundi með fulltrúum bandaríska fjármálaráðuneytisins á síðasta ári líkt aðgerðum Gordons Browns, þáverandi forsætisráðherra Breta, gegn Íslandi við herför Mussolinis gegn Eþíópíu árið 1935. Þar hafi stórt ríki níðst á litlu varnarlausu ríki. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert