Lögum um gengishagnað breytt

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, er flutningsmaður frumvarpsins.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, er flutningsmaður frumvarpsins. Eggert Jóhannesson

Lögum um tekjufærslu gengishagnaðar á innlánsreikningum í erlendri mynt verður breytt þannig að ekki verður lengur skylt að færa jákvæða gengisþróun til hagnaðar fyrr en við úttekt. Þetta er ein fjölmargra greina „bandormsins,“ sem ræddur verður á Alþingi á morgun.

Það fyrirkomulag hefur verið haft á að reikningseigendum hefur verið skylt að tekjufæra, og greiða þar með skatt af, gengishagnað á innlánsreikningum sínum í erlendri mynt, án þess að hagnaðurinn sé „innleystur,“ þ.e.a.s. tekinn út.

Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í september hafa Samtök fjárfesta farið þess á leit við Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, að þetta fyrirkomulag yrði tekið til skoðunar. Í erindi Samtakanna segir meðal annars að „gengismunur af gjaldeyrisreikningum geti aldrei talist tekjur og því ekki verið grundvöllur andlags til skattlagningar.“

Kaupi einstaklingur sér 10 þúsund evrur á genginu 150 á hann andvirði 1,5 milljóna króna í evrum. Veikist staða krónunnar gagnvart evru þannig að hver evra kostar 200 krónur á sá hinn sami skyndilega andvirði tveggja milljóna króna. Evrutalan breytist vitaskuld ekki. Þessi þróun leiðir til þess að til verður gengishagnaður upp á hálfa milljón króna.

Samkvæmt skilningi skattalaga er hér um að ræða hálfrar milljónar tekjur, sem skattleggja ber sem slíkar. Sé miðað við 18% skatthlutfall, líkt og greitt er af fjármagnstekjum nú, er því skylt að greiða 90 þúsund krónur vegna hinnar hagstæðu gengisþróunar.

Frumvarpið nú tekur á þessari gagnrýni, og raunar vísað í hana í athugasemdum við það.

Lagabreytingin, sem nær til einstaklinga utan atvinnurekstrar, tekur einnig til hvers konar krafna í erlendri mynt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert