Ferðalangar skattlagðir

Klyfjaðir erlendir ferðamenn í Reykjavík.
Klyfjaðir erlendir ferðamenn í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um um farþega- og gistináttagjald, bæði á innlenda og erlenda ferðamenn. Er markmið laganna að afla tekna til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða.

Jafnframt að afla tekna til þess að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að farþegagjald verði lagt á hvern farþega um borð í flugförum og farþegaskipum. Gjaldið verði mishátt eftir því hversu langa vegalengd farið fer. Gert er ráð fyrir að rekstraraðilar flugvalla innheimti gjaldið vegna flugfara, tollstjóri innheimti það vegna farþegaskipa í millilandaferðum og að ríkisskattstjóri sjái um álagningu gjaldsins vegna farþegaskipa í reglubundnum áætlunarferðum innan lands.    

Gert er ráð fyrir að gistináttagjald verði lagt á hverja selda gistinótt fyrir hvern einstakling. Miðað er við að innheimta og álagning gjaldsins verði með sama hætti og í virðisaukaskatti.    

Áætlað er að samtals muni gjöldin tvö koma til með að afla ríkissjóði 400 milljónir kr. á ársgrundvelli og er þá miðað við fjölda farþega með skemmtiferðaskipum, farþegaskipum og flugförum og fjölda gistinátta á árinu 2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert