Hafnar niðurskurði í frumvarpi

LIlja Mósesdóttir
LIlja Mósesdóttir Kristinn Ingvarsson

Lilja Mósesdóttir þingmaður Vinstri grænna styður ekki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í óbreyttri mynd. Þetta sagði Lilja við aðra umræðu frumvarpsins á Alþingi í nótt.

„Ég lýsti því yfir að ég myndi sitja hjá við atkvæðagreiðslu um breytingatillögur við fjárlagafrumvarpið í dag. Ástæðan er sú að þær ganga flestar út á það að draga úr niðurskurðinum. En ég vil ganga lengra í að minnka niðurskurðinn. Skilaboð mín til Fjárlaganefndar eru að draga enn frekar úr niðurskurðinum,“ segir Lilja.

Hún segir að samdrátturinn í ár sé mun meiri en efnahagsáætlun AGS gerði ráð fyrir í nóvember 2008, þegar hún var gerð. „Þá var gert ráð fyrir að það yrði enginn hagvöxtur á þessu ári og 3% hagvöxtur á næsta ári. En hagvöxtur í ár er -3% og Hagstofa Evrópusambandsins spáir 0,7% hagvexti  á næsta ári. Þannig að allar forsendur hafa breyst, það hefur orðið algjör forsendubrestur varðandi þessi fjárlög.“

Taka fleiri þingmenn Vinstri grænna sömu afstöðu og Lilja til fjárlagafrumvarpsins? „Ásmundur Einar Daðason, fulltrúi VG í fjárlaganefnd,  flutti ræðu á eftir mér í nótt þar sem hann tók undir áhyggjur mínar varðandi það að niðurskurðurinn væri of mikill miðað við versnandi hagvaxtarhorfur á næsta ári.“

Lilja segist síður en svo vilja leggja öðrum orð í munn, en segist telja að Atli Gíslason hafi miklar efasemdir um niðurskurðinn í heilbrigðigeiranum, sér í lagi úti á landi. 

Lilja segir að hún telji þann niðurskurð, sem kynntur er í fjárlagafrumvarpinu, mjög alvarlegan. „Þetta er merki um það að við séum komin inn í vítahring stöðugt minnkandi eftirspurnar  og aukins atvinnuleysis. Með því að draga úr niðurskurði er hægt að koma í veg fyrir að mörg hundruð manns verði sagt upp hjá ríkinu og tryggja það að ríkið verði áfram kaupandi að vörum og þjónustu einkageirans.“

Atkvæðagreiðsla um frumvarpið fer fram á Alþingi í dag, en þing kemur saman til þingfundar kl. 14.

Um er að ræða fyrri atkvæðagreiðslu. Ég held enn í vonina um að menn láti segjast. Margt er ágætt í fjárlagafrumvarpinu, en svo er annað sem ég get alls ekki sætt mig við. Ég mun svo skoða það við seinni atkvæðagreiðsluna hvað hefur breyst á milli umræðna. Ég bind vonir við að eitthvað breytist á milli umræðna, að fólk taki rökum.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert