Skorar á Össur

Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks.
Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks. Reuters

Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, hvetur utanríkisráðherra til þess að lýsa skoðun sinni og fordæma þær árásir sem Wikileaks hafi orðið fyrir að undanförnu. „Ég held að það væri mjög sterkt og gott fyrir Ísland,“ sagði Kristinn sem var gestur Egils Helgasonar í þættinum Silfri Egils á RÚV í dag.

„Ég vil bara helst heyra í honum í kvöld,“ bætti Kristinn við.  

Kristinn segir að málefni Wikileaks hafi verið tekin upp á fundi allsherjarnefndar Alþingis sl. föstudag og að hann hafi rætt við nefndarmenn í gegnum síma. 

„Ég gat ekki heyrt annað á nefndarmönnum en að þeir hefðu miklar áhyggjur af þessu. Og ákveðið, heyrðist mér, að halda málinu áfram. Fulltrúar kortafyrirtækja gáfu þar ófullnægjandi upplýsingar og voru aftur kallaðir fyrir fund nefndarinnar á morgun. Þannig að ég á von á því að þetta verði tekið upp á þinginu,“ sagði Kristinn. En fram hefur komið að greiðslukortafyrirtækin Visa og Mastercard hafa neitað að þjónusta Wikileaks í kjölfar birtingu bandarísku leyniskjalanna, og segir Kristinn að fyrirtæki og stofnanir séu beitt miklum pólitískum þrýstingi.

Kristinn svarar því játandi þegar hann er spurður hvort það sé raunhæft að Ísland verði einhverskonar griðland fyrir upplýsingar. „Menn eiga að setja kraft í að klára lagasetningu á grundvelli þessarar þingsályktunartillögu, sem var samþykkt í vor einróma á þinginu. Þetta er gríðarlega öflugt tækifæri fyrir Ísland til að marka sér sérstöðu, jafnvel búa til störf, að standa upp og sýna hugrekki og þor og dug. Gerast ljósberi og kyndilberi tjáningarfrelsisins og mannréttinda hér á norðri,“ segir Kristinn.

Hann bendir á að Íslendingar hafi sýnt það að þeir geti tekið stóra slagi. Hann nefnir málefni Bobby Fischer sem dæmi, þegar honum var veittur íslenskur ríkisborgararéttur í óþökk bandarískra stjórnvalda. Einnig nefnir hann þorskastríðin og hvernig Íslendingar hafi þá varið mikilvæga hagsmuni. 

„Við eigum að sýna kjark.“

Þá segir hann að engin lögsókn hafi verið sett af stað gegn Wikileaks og tekur fram að Julian Assange, stofnandi vefjarins, hafi ekki verið ákærður fyrir kynferðisbrot. Heldur sé aðeins um ásakanir að ræða, en Assange er nú í haldi bresku lögreglunnar og hefur ekki fengið lausn gegn greiðslu tryggingar. Sænsk stjórnvöld hafa farið fram á framsal og verður mál hans tekið fyrir á þriðjudag. 

Aðspurður gerir Kristinn ráð fyrir því að það sé fylgst mér sér, en hann segist ekki upplifa sig vera í hættu. „En ég hugsa að það sé náttúrulega einhver hætta fólgin í því að vera í forsvari fyrir þessi samtök.“

Kristinn bætir við að hann finni fyrir miklum stuðningi og meðbyr meðal almennings. Málið snúist um grundvallaratriði, s.s. mannréttindi og tjáningarfrelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert