Útgjöld hækka um 9 milljarða

Þriðja umræða um fjárlagafrumvarpið hefst í dag.
Þriðja umræða um fjárlagafrumvarpið hefst í dag.

Útgjöld ríkissjóðs munu hækka um 9 milljarða samkvæmt tillögum fjárlaganefndar. Lífeyrisgreiðslur hækka um 350 milljónir og framlög til atvinnuleysistrygginga um 180 milljónir. Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, tók ekki þátt í afgreiðslu nefndarinnar.

Samkvæmt tillögunni verður frumvarpið afgreitt með 37,3 milljarða halla. Heildartekjur eru áætlaðar 472,5 milljarðar kr. og heildargjöld 509,8 milljarðar kr.

Samkvæmt dagskrá Alþingis verður fjárlagafrumvarpið tekið til 3. umræðu í dag. Ásmundur Einar Daðason, sem situr í fjárlaganefnd fyrir hönd VG, stendur ekki að nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar. Árni Þór Sigurðsson, formaður þingflokks VG, skrifar undir álitið í hans stað.

Í tillögu meirihlutans er lagt til að verðbætur vegna grunnlífeyris hækki um 350 milljónir. Í tillögunum er gerð tillaga um hækkun framlaga til nokkurra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, en sem kunnugt er var dregið úr fyrirhuguðum niðurskurði til þeirra við aðra umræðu um frumvarpið. Framlög til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga verða hækkuð um 28,5 milljónir sem þýðir að upphafleg hagræðingarkrafa lækkar um 285,4 milljónir. Framlög til Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja aukast um 113 milljónir. Þá er gerð tillaga um að hækka framlög til Heilbrigðisstofnunar á Sauðárkróki um 16,4 milljónir sem þýðir að upphafleg hagræðingarkrafa lækkar um 168,5 milljónir.

Samtals gerir nefndin breytingartillögur við þriðju umræðu upp á 9.042 milljónir til hækkunar. Samkvæmt tillögunum hækka tekjur um 6.094 milljónir, en þar vegur hlutdeild fjármálastofnana í sérstökum vaxtaniðurgreiðslum til heimila langmest eða 6 milljörðum kr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert