Ísland á meiri möguleika

Við höfuðstöðvar AIB bank í Dublin. Wolf telur að með …
Við höfuðstöðvar AIB bank í Dublin. Wolf telur að með Icesave-samkomulaginu sé verið að skapa hættulegt fordæmi. Reuters

Takist Íslendingum að stuðla að hagvexti á næstu árum eiga þeir möguleika á að vaxa út úr skuldunum. Þetta er mat Martins Wolfs, aðstoðarritstjóra Financial Times, sem lýsir því yfir í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið að hann sé efins um möguleika Portúgals og Spánar á að komast úr kreppunni. 

Viðtalið fór fram símleiðis og vildi Wolf, sem er einn þekktasti álitsgjafi heims á sviði efnahagsmála, taka fram í upphafi samtals um Icesave-samkomulagið að hann hefði ekki kynnt sér nýja samninginn til hlítar. En eins og kom fram í viðtali Morgunblaðsins við Wolf í janúar, í kjölfar synjunar forsetans, taldi hann þá að gera ætti nýjan samning sem væri hagstæðari Íslandi.

„Ég hef ekki, vegna þess að ég hef verið að vinna að öðrum hlutum, haft tök á að skoða samninginn eins ítarlega og þann síðasta. Þetta er mikilvægt atriði sem ég vil taka fram áður en lengra er haldið. Ég lít ekki á mig sérfræðing um málið en skilningur minn er sá að grunngerð nýja samningsins sé sú sama og í síðasta samningi en að skilmálarnir séu hagstæðari fyrir Ísland hvað varðar vexti.“

Ísland gerði rétt með því að hafna fyrri samningum

Wolf spyr því næst hvort þetta sé rétt skilið í meginatriðum og tekur blaðamaður þá undir það. Hann heldur svo áfram.

„Viðbrögð mín við samningnum eru þá tvíþætt. Í fyrsta lagi er þetta greinilega betri samningur og því var ákvörðunin um að hafna þeim síðasta góð hugmynd, vegna þess að Ísland á nú kost á betri samningi en ef landið hefði samþykkt síðasta samninginn.

Í öðru lagi er ég enn þeirrar skoðunar að Ísland eigi ekki að vera krafið og hefði ekki átt að vera krafið um að veita ríkisábyrgð til að standa undir innistæðutryggingunni, þ.e. innistæðutryggingakerfið sem augljóslega fór í þrot, í því tilviki þegar bankakerfið brást.

Grundvallarspurningin hér er hvort skynsamlegt sé að fullvalda ríki séu dregin til ábyrgðar fyrir öll afglöp í fjármálakerfi þeirra, einkum þegar, að minni hyggju, fremur augljóst er að þessar stofnanir voru áhættusamar útfrá skilmálum útlánanna sem þær buðu upp,“ segir Wolf og á við að háir innlánsvextir á íslenskum innlánsreikningum, af Icesave Landsbankans og Kaupthing Edge-reikningunum, hefðu átt að hringja viðvörðunarbjöllum.

Fullvalda ríki séu ekki gerð ábyrg

Wolf heldur áfram. 

„Svo mér líkar ekki sú staðreynd að fullvalda ríkið Ísland sé gert ábyrgt fyrir því að bæta upp fyrir hrun innistæðutryggingakerfisins. Ég tel að það sé afar óheppilegt fordæmi.

Þótt að það sé ljóst eftir því sem ég kemst næst að kostnaðurinn fyrir Ísland verði að lokum líklega umtalsvert lægri en fólk óttaðist fyrir ári síðan eða svo, vegna þess að eignirnar úr skuldauppgjörinu líta nú betur út, sem og skilyrðin, tel ég enn að það hefði verið betra að afhenda einfaldlega allar eignirnar til breskra og hollenskra stjórnvalda og láta þær um að taka það sem þær gátu út úr þeim, og láta íslenska skattgreiðendur í friði, vegna þess að ég tel ekki að íslenski skattgreiðendur beri ábyrgð á þessu.

Ég er enn þeirrar skoðunar, eins og ég sagði, að þetta er greinilega betri samningur en áður, en að grundvallarreglur komi við sögu í þessum samningi, sem koma illa við mig. Ég tel að hvað varðar umfang skuldanna sem íslenskir skattgreiðendur kunna að axla, og hugmyndina um að skattgreiðendur þurfi að bæta fyrir innistæðutryggingakerfi sem hefur brugðist, að þetta tvennt sé afar viðsjárvert.“

Skattborgarar annarra ríkja gætu verið gerðir ábyrgir 

- Þú minntist á að þetta skapi hættulegt fordæmi. Hvers vegna?

„Það gæti þýtt að í tilviki annarra svipaðra gjaldþrota í framtíðinni verði skattgreiðendur annarra fullvalda ríkja gerðir ábyrgir fyrir því að borga út sparifjáreigendur hjá stofnunum sem starfa erlendis, mögulega í mjög miklu mæli og það gæti átt við breska ríkið og önnur ríki.

Sú regla að ríkisstjórnir skuli ganga í ábyrgð fyrir skuldir fjármálastofnana sem starfa erlendis virðist mér ótrúlega hættuleg og óheppileg fyrir fjármálakerfið. Það er fordæmið sem ég hef áhyggjur af. Mín skoðun er þessi: Innistæðutryggingasjóði var komið á og hann ætti að vera nægilegur og með fullnægjandi fjármögnun. Ef hann bregst tapa sparifjáreigendur og þeira verða þá að sætta sig við það.“

Ísland ætti að ráða við skuldirnar

- Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands eru skuldir íslenska ríkisins nú um 109% af þjóðarframleiðslu. Telurðu að þegar horft er til þessa hlutfalls og skuldanna vegna Icesave, sem verða í minnsta lagi um 50 milljarðar króna, samanborið við um 1.500 milljarða þjóðarframleiðslu, að Ísland sé komið upp að skuldamörkum sem ætti að vera þegnum landsins áhyggjuefni?

„Ég hef ekki gaumgæft þessar tölur en tel að það séu sæmilegar líkur í ljósi gengisfellingarinnar sem Ísland hefur gengið í gegnum. Íslenska hagkerfið gæti vaxið nokkuð kröftuglega. Ef sú verður raunin kann skuldahlutfall upp á 109% af þjóðarframleiðslu að ganga nokkuð hratt til baka, vegna þess að mig grunar gengið sé of lágt skráð þannig að hagvöxtur gæti vaxið fremur hratt að nafnvirði, sem ætti að hjálpa.

Ég hygg að hluti af þessum skuldum séu í erlendum gjaldeyri, vegna lána sem tekin voru hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum alþjóðlegum aðilum. Ég tel því að hlutfallið, 109%, muni lækka. Ég geri einnig ráð fyrir út frá því sem ég hef lesið - og ég vil aftur undirstrika að ég álít mig ekki sérfræðing í þessum efnum - að góðar líkur séu á að þessi skuld muni ekki reynast Íslendingum mjög dýr, vegna þess að miklar heimtur muni fást upp í kröfunar úr þrotabúinu.

Ef það gengur eftir sýnast mér sæmilegar líkur - ég get ekki lagt fram tölfræðilegar líkur, líkurnar eru þó sannarlega meiri en ekki - á að þetta skuldahlutfallið reynist viðráðanlegt og að Ísland geti vaxið út úr erfiðleikunum sem landið stendur frammi fyrir. Þetta er vissulega hátt hlutfall en að því gefnu að báðar ályktanir gangi eftir sýnist mér rétt að vona að Ísland geti komist út úr þessu.

Vandamálið sem ég sé hjá nokkrum evruríkjanna, sem eru í svipaðri stöðu hvað skuldahlutföll snertir, er að vaxtarmöguleikar þeirra eru takmarkaðir og að þau skuli þurfa gífurlega niðurfærslu á verðlagi til að endurheimta samkeppnisstöðu sína. Það vandamál virðist ekki koma upp á Íslandi.“

Ósveigjanleikinn er vandamál 

- Er slík niðurfærsla á verðlagi í umræddum löndum raunhæf í náinni framtíð?

„Í tilviki Írlands tel ég að niðurfærsla verðlags sé sæmilega raunsæ. Hún hefur svo sannarlega átt sér stað. Írland virðist vera land sem á sæmilega möguleika á að ná fram því sem nú á dögum er nefnt innri gengisfelling,“ segir Wolf en innri gengisfellingu á hann við að laun séu lækkuð og þar með framleiðslukostnaður þannig að fjárfestingarumhverfi viðkomandi ríkis verði fýsilegra, að viðbættri sterkari samkeppnisstöðu.

„Hvað varðar önnur evruríki, Grikkland, Portúgal og Spán, sem eiga ekki í ólíkum erfiðleikum, verð ég að segja að ég er mun meira efins að þau muni ná fram slíkri aðlögun, vegna þess að skilningur minn er sá að vinnumarkaðir þessara ríkja eru mun ósveigjanlegri og geta þeirra til að þvinga fram launalækkanir er með hliðstæðum hætti mun minni en Írland hefur sýnt fram á.“

Martin Wolf er aðstoðarritstjóri Financial Times.
Martin Wolf er aðstoðarritstjóri Financial Times.
Icesave-bollinn frægi.
Icesave-bollinn frægi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert