Samningur um leit og björgun á Norðurslóðum

Hér sést hvernig leitar- og björgunarsvæði Íslands er afmarkað samkvæmt …
Hér sést hvernig leitar- og björgunarsvæði Íslands er afmarkað samkvæmt nýjum samningi Norðurskautsráðsins.

Aðildarríki Norðurskautsráðsins luku í Reykjavík í dag síðasta samningafundi sínum um leit og björgun á norðurslóðum. Í hinum nýja samningi eru leitar- og björgunarsvæði ríkjanna afmörkuð og kveðið á um skuldbindingar þeirra og samstarf við leitar- og björgunaraðgerðir. Þetta er fyrsti alþjóðasamningurinn milli ríkjanna átta og því sögulegur.

Norðurskautsráðið er samstarfsvettvangur ríkja þeirra landa sem liggja á eða að Norðurslóðum. Fundinn, sem haldinn var í Reykjavík 14.-16. desember, sóttu um 50 sérfræðingar frá Bandaríkjunum, Danmörku fyrir hönd Færeyja og Grænlands, Finnlandi, Íslandi, Kanada, Noregi, Rússlandi og Svíþjóð.

Bandaríkjamaðurinn David Balton, sem stjórnaði samningaviðræðunum, sagði í samtali við Morgunblaðið að samningurinn muni vonandi leiða til þess að mannslífum verði bjargað á Norðurslóðum. „Fleiri og fleiri leggja leið sína á Norðurskautið eftir því sem loftslag fer hlýnandi en ríkisstjórnir þessara landa eru ekki eins vel búnar undir það og þær þyrftu að vera að leita að fólki og bjarga. Þessi samningur leiðir til þess að auðveldara verður að samræma aðgerðir á milli landa ef neyðarástand skapast."

Balton er þeirrar skoðunar að samningurinn muni hafa jákvæð áhrif gagnvart Íslandi, þar sem hann stuðli að greiðari samskiptum við nágrannalöndin sem muni skipta miklu máli þegar á reynir.  „Ég held líka að þessi samningur sanni að þessi átta ríki geta unnið saman að því að setja lagalega bindandi samninga og það getur rutt brautina fyrir frekari samningaviðræður um Norðurskautið."

Tómas H. Heiðar þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins sem leiddi samninganefnd Íslands segir að gerð samningsins falli afar vel að stefnu íslenskra stjórnvalda í norðurslóðamálum, enda hafi þau lagt mikla áherslu á að efla Norðurskautsráðið sem megin vettvanginn fyrir samstarf um  málefni norðurslóða. Samningurinn skapi mikilvægt fordæmi fyrir frekari samningsgerð aðildarríkja ráðsins á hinum ýmsu sviðum.  Hann segir samninginn í raun fela í sér litlar breytingar á því leitar- og björgunarsvæði sem Íslendingar bera ábyrgð á.  Aðspurður hvort Íslendingar muni ráða við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í neyðartilvikum miðað við núverandi stöðu Landhelgisgæslunnar segir Tómas að samstarfið sé Íslendingum mjög í hag.

„Kjarni samningsins felst í auknu samstarfi milli þessara átta ríkja og það mun auðvelda öllum að ráða við sínar skuldbindingar. Það á ekki síst við um Ísland, sem er lítið ríki með takmarkaðan búnað."

Samningurinn um leit og björgun á norðurslóðum verður undirritaður á
ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk á Grænlandi í maí næstkomandi. 

Tómas Heiðar þjóðréttarfræðingur
Tómas Heiðar þjóðréttarfræðingur Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert