Visst áfall segir Steingrímur

Frá atkvæðagreiðslu á Alþingi í dag
Frá atkvæðagreiðslu á Alþingi í dag mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að það sé visst áfall að þrír stjórnarþingmenn studdu ekki fjárlögin við atkvæðagreiðslu í dag. Hann segist ekki draga neitt úr því að þetta hafi verið erfitt. Ekki bara útávið heldur einnig félagslega. Þetta kom fram í máli ráðherra í Kastljósi í kvöld.

Í dag sátu þrír þingmenn Vinstri grænna, Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason, hjá við atkvæðagreiðslu við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2011 á Alþingi í dag.

Aðspurður segir hann það hlutverk þeirra þriggja að svara því hver staða þeirra er. Hann segist ekki mæla með því að fólki sé vísað úr þingflokknum og að öllum þeim sem eru stuðningsmenn í reynd sé fagnað. En þegar svona stórt frumvarp eins og fjárlagafrumvarpið er ratar í vandræði þá sé það alvarlegt mál.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þetta komi á óvart að þetta skuli koma í ljós við atkvæðagreiðsluna sjálfa og greinilegt að ríkisstjórnarsamstarfið sé laskað. 

Bjarni sagði í Kastljósi í kvöld að það erfiðasta sé fyrir fólkið í landinu að búa við þau fjárlög sem voru samþykkt í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert