Stöðugir níðpóstar um Lilju

Frá afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins á Alþingi.
Frá afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins á Alþingi.

Þingmenn Samfylkingarinnar gera vandræðin innan Vinstri grænna reglulega að umtalsefni á spjallsvæði sínu í innanhúspóstkerfi Alþingis. Samfylkingarmenn ræða oft um einstaka þingmenn og þykja skrifin einkennast af virðingarleysi og þeim skilaboðum að sumir þingmenn séu betur komnir annars staðar.

Fréttavefur Morgunblaðsins hefur þetta eftir áreiðanlegum heimildum en samkvæmt heimildarmanni blaðsins er reglulega vikið að þingmönnunum þremur sem sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga, þ.e. Atla Gíslasyni, Ásmundi Einari Daðasyni og Lilju Mósesdóttur.

Munu skrifin um Lilju einkennast af hörku og er inntakið oft á þá lund að það væri betra fyrir stjórnina ef hún tæki poka sinn og léti af þingmennsku.

Samkvæmt heimildum blaðsins er ekki um beinar hótanir að ræða en hitt þótti augljóst að túlka yrði einstök skeyti sem níð um Lilju og skoðanir hennar.

„Þeir [póstarnir] eru mjög harðorðir og beinast að öllum þingmönnunum sem eru ekki á harðri flokkslínu. Það er talað um þingmenn VG og vandræði flokksins. Það hefur verið sagt við þau í samtölum að þau eigi að koma sér í burtu. Þessir tölvupóstar hafa verið alveg rosalegir,“ sagði heimildarmaðurinn sem vildi ekki koma fram undir nafni.

Lilja Mósesdóttir
Lilja Mósesdóttir Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert