Velkomin í Hreyfinguna

Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður studdi ekki fjárlagafrumvarpið. Þór segir hann …
Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður studdi ekki fjárlagafrumvarpið. Þór segir hann velkominn í Hreyfinguna.

„Við myndum fagna því að fá eitthvað af þessu fólki til liðs við okkur. Það þarf að vera á ákveðnum forsendum. Þær forsendur hafa verið skoðaðar og þær eru vel yfirstíganlegar,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, aðspurður hvort hjásetuþingmennirnir þrír í VG séu velkomnir í flokkinn. 

Þór segir það reglulega hafa komið til tals að Lilja Mósesdóttir, einn þingmannanna þriggja, og tvær flokksbræðra hennar, Atli Gíslason og Ásmundur Daði Einarsson, gangi til liðs við Hreyfinguna.

„Við ræddum þetta á sínum tíma. Niðurstaðan var sú að Lilja og félagar hennar ákváðu að vera áfram í Vinstri grænum vegna þess að þau voru kosin á þing fyrir flokkinn. Þetta voru ekki beinar viðræður heldur eitthvað sem við spjölluðum um þegar við hittumst á göngum þingsins.

Það er hins vegar spurning hvað Lilju og félagar hennar telja sér lengi vært í VG. Þau verða fyrir rosalegum árásum úr röðum eigin félaga og eins af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar. Þetta eru mjög óvægnar árásir. Lilja situr undir stöðugum árásum.“

Þór bendir á að óánægjan eigi sér dýpri rætur en hann rifjar jafnframt upp aðkomu Ögmundar Jónassonar, dómsmálaráðherra. 

„Þau eru búin að vera að vafstra í þessu lengi, Lilja, Ögmundur og Ásmundur Daði. Það kom strax upp í fyrrasumar í tengslum við Icesave-málið hvað þeim yrði lengi vært í þingliði VG. Ögmundur sagði í kjölfarið af sér ráðherraembætti. Slíkt er fáheyrt í Íslandssögunni.“

Hann ítrekar að þingmenn „órólegu deildarinnar“ séu velkomnir í Hreyfinguna. 

„Það hefur alltaf legið uppi á borðinu að svo fremi sem þau styðja stefnu Hreyfingarinnar og séu ekki að berjast fyrir neinu sem gengur þvert gegn fyrri stefnu, að þá séu þau velkomin.“

- Eiga þau heima í Hreyfingunni?

„Já, vissulega. Við lítum á okkur sem regnhlífarsamtök. Við erum með mjög takmarkaða stefnuskrá [...] Mér finnst hins vegar ólíklegt að þau komi yfir til okkar. Ef þingmennirnir halda áfram að vera eins andstyggileg og þau hafa verið við Lilju að þá munu þeir náttúrulega hrekja hana í burtu og þá annað hvort verður hún óháð eða kemur til okkar. Hvað Ögmund varðar leyfi ég mér að efast um að hann muni nokkru sinni hætta í VG. Sama á við um Jón Bjarnason. Ég efast um að þeir fari að hætta. Þetta er þeirra flokkur.“

Þór Saari
Þór Saari Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert