„VG gera allt til að losna við Lilju“

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. MBL/Ómar Óskarsson

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, telur að Vinstri græn geri nú allt sem þau geti til að flæma Lilju Mósesdóttur burt úr þingflokknum og til þess sé beitt ýmsum brögðum.

„Árni Þór Sigurðsson gaf í skyn í Kastljósi í gær að engar breytingartillögur hefðu verið lagðar fram við fjárlagafrumvarpið, en það er ekki rétt. Lilja sagði sig meira að segja úr vinnuhóp stjórnarþingmanna um frumvarpið vegna þess að engar af hennar tillögum fengu hljómgrunn,“ segir Þór.

Hann segir að Lilja hafi reynt að ná fram breytingum á fjárlagafrumvarpinu frá því að það var lagt fram, en lítið hafi verið hlustað á hana.

„Það segir meira en margt annað um þetta fjárlagafrumvarp, að ekkert sé hlustað á Lilju Mósesdóttir, einn helsta sérfræðing okkar í efnahagsmálum. Hún ætti að vera efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.“

Þór segir að málið snúist fyrst og fremst um „innherjapólitík.“ 

„Það er stríð innan þingflokks Vinstri grænna. Þau eru að reyna að losna við Lilju og  beita til þess öllum meðulum sem þau telja þurfa. Hún er sérfræðingurinn í þessum málum og hennar skoðanir og hugmyndir falla ekki að hugmyndum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem Steingrímur er að framfylgja. Þetta er ekkert flóknara en það, “ segir Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert