Allt að 122% verðmunur á hamborgarhryggnum

Hamborgarahryggur
Hamborgarahryggur mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Allt að 122% verðmunur var á hamborgarhrygg með beini þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í 7 lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum í Reykjavík og Akureyri sl. mánudag. Kannað var verð á 46 algengum matvörum sem eru til í eldhúsum landsmanna yfir hátíðarnar.

Bónus var oftast með lægsta verðið í 27 tilvikum af 46 en í 15 tilfellum var um eða undir 2 krónu verðmunur á Bónus og Krónunni. Nóatún var með hæsta verðið í 19 tilvikum, en Samkaup-Úrval var næst oftast með hæsta verðið í 15 tilvikum.

Mikill verðmunur reyndist á hangikjöti og hamborgarhrygg, en verðmunurinn var 32-122%. Mesti verðmunurinn var á KEA hamborgarhrygg m/beini sem var á lægsta verðinu hjá Nettó Akureyri á 989 kr./kg. en dýrastur hjá Nóatúni og Samkaupum-Úrval á 2.198 kr./kg. sem er 122% verðmunur eða 1.209 kr.

Minnstur verðmunur var á taðreyktu hangikjöti frá Kjarnafæði sem var á lægsta verðinu hjá Fjarðarkaupum á 2.428 kr./kg. en dýrast hjá Nettó á 3.195 kr./kg. sem er 32% verðmunur eða 770 kr./kg. Einnig má benda á að það var 54% verðmunur á hæsta og lægsta verði á SS birkireyktu hangikjöti.

Yfir 100% verðmunur á appelsínum

Mikill verðmunur á grænmeti og ávöxtum milli verslanna vakti einnig athygli, segir í tilkynningu ASÍ. Sem dæmi má nefna að   ódýrustu fáanlegu appelsínurnar kostuðu 168 kr./kg. í Fjarðarkaupum en 339 kr./kg. hjá Hagkaupum sem er 102% verðmunur. Forsoðnar skyndikartöflur frá Þykkvabæ voru ódýrastar á 395 kr./kg. hjá Bónus en dýrastar á 545 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum sem er 38% verðmunur eða 150 kr./kg.

Konfektið ódýrast í Bónus

Af öðrum vörum má nefna að lægsta verð á Lindu konfektkassa 460gr. var 998 kr. í Bónus en það var dýrast í Fjarðarkaupum á 1.498 kr. sem er 50% verðmunur. Ódýrasta kílóverðið af Machintoch Quality Street var 1.299 kr./kg. hjá Bónus en það var dýrast hjá Nóatúni á 1.990 kr./kg. sem er 53% verðmunur eða 691 kr./kg. Aðeins var 3-9% verðmunur á Nóa konfektinu á milli verslana en lægsta verðið var hjá Bónus en hæsta hjá Nóatúni og Samkaupum-Úrval.

Sjá tilkynningu ASÍ í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert