Bannað að miðla eftirlitsmyndum

Persónuvernd hefur kveðið upp tvo úrskurði um að miðlun mynda úr eftirlitsmyndavélum af meintum búðaþjófum í verslunum í eigu Haga hf. annars vegar og Norvikur hf. hins vegar til félaga í þeirra eigu, hafi verið óheimil. 

Í úrskurðunum kemur m.a. fram að fyrirtækjunum sé heimilt að verja hendur sínar með því að viðhafa almennt eftirlit í þágu öryggis og eignavörslu, s.s. með notkun eftirlitsmyndavéla. Þau geti eftir því sem þörf krefur miðlað upplýsingum sem þannig fást um refsivert afhæfi, slys o.þ.h. til lögreglu. Uppljóstran sakamála og refsivarsla sé hins vegar á hendi lögreglu og það sé ekki á valdi einstakra hlutafélaga að taka það hlutverk að sér. Í báðum málunum var miðlun myndanna talin hafa verið félögunum óheimil.

Stórt safn mynda

Mál Haga, sem m.a. á verslunina Zöru í Kringlunni, kom til kasta Persónuverndar vegna kvörtunar konu yfir notkun mynda af henni í verslun Zöru. „Athugun á því máli leiddi ekki í ljós að til væru myndir af henni þar og taldi Persónuvernd þá ekki vera efni til sérstakrar umfjöllunar um mál konunnar. Var það þá fellt niður. Við rannsókn þess máls hafði hins vegar komið í ljós að hjá Högum fór fram umtalsverð vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, þ.e. mynda af fólki sem talið var hafa hnuplað úr verslunum, og að Hagar hefðu m.a. sent slíkar myndir til Zöru. Ákvað Persónuvernd þá að kanna það nánar,“ segir í úrskurði Persónuverndar.

Starfsmenn Persónuverndar heimsóttu verslunina Zöru og öryggisdeild Haga og kom í ljós að í tölvu í verslun Zöru var margar myndir að finna. „Þá var einnig stórt safn mynda að finna hjá öryggisdeild Haga. Um var að ræða myndir úr eftirlitsmyndavélum. Í versluninni Zöru var rætt við yfirmenn. Að þeirra sögn höfðu myndirnar verið sendar þangað með rafrænum hætti frá Högum sem sagt var að héldi utan um upplýsingar um einstaklinga sem talið var að hefðu hnuplað úr verslunum,“ segir í úrskurðinum.

Í bréfi lögmanns Haga til Persónuverndar, sem ítarlega er rakið í úrskurði Persónuverndar, kemur m.a. fram að þjófnaður í verslunum sem heyra undir Haga sé vaxandi vandamál. Mikilvægt sé að viðhafa þetta eftirlit ekki síst vegna öryggis starfsfólks.

Myndir hengdar upp á veggi

Mál Norvikur bar þannig að, að Persónuvernd bárust kvartanir einstaklinga yfir notkun mynda af þeim í Nóatúnsverslunum, sem eru í eigu Norvikur. „Athugun Persónuverndar á málum þessara kvartenda leiddi ekki í ljós að unnið hefði verið með myndir af þeim. Voru því ekki talin efni til frekari umfjöllunar um þeirra mál. Við meðferð málanna hafði hins vegar komið í ljós að í umræddum verslunum var umtalsvert magn mynda af fólki sem talið var hafa tekið vörur ófrjálsri hendi. Í vettvangsheimsókn í Nóatúnsverslun að Hringbraut 121 reyndust allmargar myndir vera hengdar upp á veggi og í Nóatúni 18 var fjöldi mynda í harðspjaldamöppum. Myndirnar voru sagðar hafa komið frá Norvík hf.,“ segir í umfjöllun Persónuverndar.

Í bréfi Norvikur til Persónuverndar segir m.a. að verslunarstjóri í sérhverri verslun hafi aðgang að skjá sem sýnir lifandi myndir úr myndavélum í hans verslun, í þeim tilgangi að geta haft yfirsýn yfir það sem þar á sér stað hverju sinni, sjá þegar viðskiptavinur kemur inn í verslunina o.s.frv. Engin viðvarandi eða reglulega endurtekin vöktun eigi sér stað með þessum aðgangi verslunarstjóranna og hann sé ekki nýttur til neins konar eftirlits með einstaklingum.

Engin miðlun myndefnis úr umræddu eftirlitsmyndavélakerfi, eða upplýsingum um mál í tilefni af slíku, hafi verið miðlað til annarra félaga en þeirra sem eru í eigu Norvíkur hf.

Uppljóstrun sakamála á hendi lögreglu

Í úrskurði Persónuverndar í þessum málum segir að miðlun myndanna verði að uppfylla ákvæði laga um persónuvernd. Ekkert liggi fyrir um að miðlun myndanna eigi sér stoð í þeim lögum.

Vinnsla mynda úr eftirlitsmyndavélum geti hins vegar verið heimil að uppfylltum skilyrðum um myndefnivegna vöktunar „verði ekki afhent öðrum eða unnið frekar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar. Heimilt er þó að afhenda lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað, en þá skal þess gætt að eyða öllum öðrum eintökum af efninu. Að baki þessu ákvæði býr m.a. sú grunnregla íslensks réttar að uppljóstran sakamála og refsivarsla er á hendi lögreglu og það er t.d. ekki á valdi einstakra hlutafélaga að taka með einhverjum hætti að sér þetta hlutverk ríkisvaldsins,“ segir í niðurstöðu Persónuverndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert