Gagnrýnir yfirlýsingar Breta

Alex Singleton, einn af leiðarahöfundum breska blaðsins Daily Telegraph gagnrýnir bresk stjórnvöld harðlega fyrir að boða aðgerðir vegna makrílveiða Íslendinga. 

Singleton segir á vef Telegraph, að árásir Richards Benyons, landbúnaðaráðherra, á Íslendinga vegna makrílveiðanna séu einhverjar vanhugsuðustu yfirlýsingar, sem komið hafi frá ráðherra í nýrri samsteypustjórn Bretlands. Hafi Benyon sagt, að hann sé að íhuga til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að Íslendingar sjái að sér og minnki makrílveiðikvóta sinn.

„Hver er ástæðan? Jú, Benyon er reiður yfir því að breskir fiskistofnar standa illa - og hann hefur ákveðið að kenna Íslendingum um það en þeir hafa aukið makrílkvóta sinn verulega eftir að makríll fór að ganga inn í íslensku lögsöguna í stórauknum mæli. En við verðum að horfast í augu við það, að þegar fiskistofnar stækka er rökrétt að auka veiðikvóta," segir Singleton. 

Hann segir ljóst, að bresk stjórnvöld þrýsti nú á Evrópusambandið að beita Íslendinga viðskiptaþvingunum. „Þetta er fáránlegt.  Íslendingar eiga skilið að við réttum þeim hjálparhönd en efnum ekki til viðskiptastríðs. Þeir urðu fyrir miklum búsifjum í fjármálakreppunni og ef þeir eru svo heppnir, að stórir fiskistofnar synda í lögsögu þeirra þá ættum við ekki að öfunda þjóðina af þeirri heppni," skrifar Singleton. 

Hann segir að skúrkarnir í breskum sjávarútvegi séu stjórnmálamennirnir, sem haldi áfram að styðja aðild Bretlands að Evrópusambandinu.  „Allir utan Westminster viðurkenna, að sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins er umhverfisslys og því ætti ríkisstjórnin, frekar en að reyna að gera friðsama smáþjóð í norðri að skúrkum, að setja lög um að frelsa fiskistofnana okkar úr greipum Evrópusambandsins."

Leiðari Singleton

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert