Fréttaskýring: Skráningargjöld mun lægri en skólagjöld

Skólagjöld við háskóla
Skólagjöld við háskóla

Ásókn í háskólanám á Íslandi hefur aukist í kjölfar efnahagskreppunnar á sama tíma og háskólunum er gert að skera niður. Nú er svo komið við Háskóla Íslands að á næsta ári er búist við að nemendur verði um 900 fleiri en ríkisvaldið greiðir með. Hefur Háskólaráð hafið undirbúning að aðgangstakmörkunum og fækkun starfsfólks virðist nauðsynleg.

Rektorar ríkisháskólanna óskuðu einnig eftir að hækka skráningargjald úr 45 þúsund krónum í 65 þúsund. Lagabreytingu þarf til að heimila slíka hækkun en stjórnvöld höfnuðu þeirri leið.

Skráningargjald við Háskóla Íslands hefur staðið í stað frá árinu 2005 þegar það var hækkað í 45 þúsund krónur. Er það sama gjald og innheimt er í hinum ríkisháskólunum, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum á Hólum og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Miðað við verðlagsforsendur fjárlaga frá 2005 væri gjaldið nú 70.000 krónur.

Mun hærri við einkaskólana

Væri skráningargjald við ríkisháskólana hækkað í 65 þúsund krónur myndi grunnnám við skólana kosta 195.000 krónur miðað við að það sé tekið á þremur árum. Kostnaðurinn nú er 135 þúsund krónur.

Þegar þær upphæðir eru bornar saman við skólagjöld í einkaskólunum kemur í ljós að þær eru tiltölulega lágar. Nemendur í grunnnámi við Háskólann í Reykjavík greiða 154 þúsund krónur á önn. Ef miðað er við þriggja ára nám er kostnaður við námið 924 þúsund krónur.

Á Bifröst, þar sem boðið er upp á nám í viðskipta-, laga- og félagsvísindadeild, greiða nemendur 8.600 krónur fyrir hverja ECTS-einingu en grunnnámsgráður eru 180 slíkar einingar. Heildarkostnaður við grunnnám þar nemur því rúmlega einni og hálfri milljón.

Skólagjöld við Listaháskóla Íslands voru hækkuð fyrir þetta skólaár um 7,3% í samræmi við hækkun neysluvísitölu og greiða nemendur þar nú 343.360 krónur fyrir árið. Þriggja ára nám við LHÍ kostar því listnema rúma milljón króna.

Veruleg vonbrigði

„Við urðum í raun fyrir talsverðum vonbrigðum þegar þessu var neitað,“ segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, um að beiðni ríkisskólanna um hækkun skráningargjalds hafi verið hafnað.

„Þetta er ákveðin þversögn. Okkur er gert að taka inn stúdenta sem hafa til þess réttindi en án þess að fjárframlög fylgi. Við megum ekki taka gjöld fyrir og við megum ekki hækka skráningargjald. Þetta setur okkur í mjög erfiða stöðu,“ segir hún.

Lykilatriði sé að staðinn verði vörður um gæði námsins en nú sé komið að þeim mörkum að þau verði ekki tryggð nema eitthvað annað komi til.

Segir Kristín að ef ekki verði á því tekið sé bæði verið að hlunnfara nemendur og samfélagið sem þurfi á velmenntuðu háskólafólki að halda.

Einnig hefur verið rætt um fækkun starfsfólks við skólann.

„Þessi niðurskurður þýðir að það þarf áfram að fækka fólki bæði með uppsögnum og lækkun starfshlutfalla. Við höfum þegar gert það en verðum að halda því áfram,“ segir Kristín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert