Yfirlýsingarnar ekki skuldbindandi

Eiríkur Tómasson.
Eiríkur Tómasson. mbl.is

Yfirlýsingar ráðherra haustið 2008 um að eignir sparifjáreigenda í bönkum væru öruggar voru á engan hátt skuldbindandi fyrir ríkið þar sem þær áttu sér enga stoð í lögum. Eiríkur Tómasson lagaprófessor segir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í dag, þar sem ríkið er sýknað af kröfum eigenda peningabréfa í Landsbankanum, komi ekki á óvart.

Stefnendurnir í málinu vísuðu m.a. til þess að Glitnishelgina svonefndu í lok september hafi ráðherrar og embættismenn keppst við að róa reiðufjáreigendur og lýst því yfir að eignir þeirra í bönkunum væru öruggar. Dómurinn bendir hins vegar á að umræddar yfirlýsingar og ummæli ráðherra verði ekki taldar loforð í skilningi kröfuréttar.

Eiríkur segir að ef yfirlýsingar ráðherra eiga að binda ríkið þurfi það að vera í formi laga eða styðjast við ákveðna lagaheimild. ,,Það eru til dómar um að yfirlýsingar ráðherra og jafnvel samningar sem ekki hafa átt sér stoð í lögum, t.d. í fjárlögum, hafa ekki verið taldir skuldbindandi fyrir ríkið. Þessi niðurstaða kemur í sjálfu sér ekkert á óvart,“ segir Eiríkur.

Eiríkur segir von að fólk hafi treyst yfirlýsingum af þessu tagi. „Það hafa verið gefin ákveðnari loforð eða jafnvel gerðir samningar án þess að það væri stoð fyrir þeim í lögum og eftir atvikum í fjárlögum,“ segir hann.

„Þegar um er að ræða einkabanka eða einkafyrirtæki sem ekki er með ábyrgð ríkisins á sínum skuldbindingum þá þarf meira að koma til en einföld yfirlýsing ráðherra,“ segir Eiríkur.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert