Skiptir mál hver lagði tillögurnar fram

Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði í morgunþætti Bylgjunnar í dag, að hjáseta hennar og tveggja annarra þingmanna flokksins í atkvæðagreiðslu um fjárlög næsta árs, væri í raun örvæntingarfull tilraun til að fá stjórnarmeirihlutann til að skoða tillögur þeirra en þau hefðu lýst andstöðu við ákveðna þætti fjárlagafrumvarpsins allt frá því í maí í vor.

„En vandamálið  er að það er ekki hlustað á okkur og stundum hef ég á tilfinningunni að það skipti máli frá hverjum gagnrýnin og ábendingarnar koma. Ef ég tala fyrir sjálfa mig þá hef ég talað fyrir almennri skuldaleiðréttingu, lagt fram frumvarp sem kallað er lyklafrumvarpið og frumvarp um fyrningu krafna en þessi frumvörp hafa ekki fengið framgang, meðal annars held ég vegna þess að það var ég sem lagði þau fram en ekki einhver annar," sagði Lilja.

Hún sagðist mjög  hissa á þeim viðbrögðum, sem komið hefðu frá stjórnarmeirihlutanum við hjásetu þeirra þriggja. „Fyrst eftir atkvæðagreiðsluna var talað um að hjáseta okkar boðaði vantraust á ríkisstjórnina. Ég veit ekki betur en að vantraustsyfirlýsing sé lögð fram af stjórnarandstöðunni þegar hún telur að stjórnin hafi ekki meirihluta," sagði Lilja.  „Okkar hjáseta snérist ekki um vantraust á ríkisstjórnina heldur það, að við höfum ekki sannfæringu fyrir þeirri efnahagsstefnu, sem birtist í fjárlagafrumvarpinu."

Lilja að niðurskurður á fjárlögum næsta árs væri ekki í samræmi við stefnu Vinstri grænna og samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna þar sem segi að standa eigi vörð um velferðarkerfið. „Við teljum ekki að það hafi verið reynt í þessu fjárlagafrumvarpi," sagði hún og bætti við það væri mjög erfitt að vera í ríkisstjórn þegar þyrfti að ganga á bak  flestra kosningaloforða annars flokksins. Hún sagði að Samfylkingin hefði aðeins haft eitt kosningaloforð: að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Lilja sagði, að  eitt af kosningaloforðum VG hefði verið að standa vörð um velferðarkerfið og á flokksráðsfundi flokksins í haust hefði verið samþykkt að ekki ætti að skera það mikið niður í heilbrigðiskerfinu að störfum þar fækkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert