Eitt af þurrustu árum SV-lands

Snjórinn hefur ekki verið til mikilla vandræða í höfuðborginni það …
Snjórinn hefur ekki verið til mikilla vandræða í höfuðborginni það sem af er vetrar. mbl.is/Golli

Árið í ár er eitt af þurrustu árum á Suður- og Vesturlandi. Þetta segir Trausti Jónsson veðurfræðingur. Hann telur ólíklegt að hitamet verði sett í ár, en þetta ár sé það 15. í röð í Reykjavík með hita yfir meðallagi. Það sé eiginlega með ólíkindum.

Trausti fjallar um veðrið á árinu á veðurbloggi sínu. Hann segir allt benda til að árið í ár verði í 2.-5. sæti yfir heitustu ár frá því að mælingar á hitastigi hófust.

„En það er ekki aðeins hiti ársins sem er nærri meti. Heldur er úrkoman einnig með allra minnsta móti um mestallt Suður- og Vesturland. Sem stendur er árið líka nærri topp-5 (botn-5?),“ segir Trausti.

Trausti bendir á að í desember hafi nær engin úrkoma fallið á Kirkjubæjarklaustri. Dæmafátt úrkomuleysið sé líka í Vestmannaeyjum og því ekki furða að menn kvarti yfir öskufoki undir Eyjafjöllum.

„Svo er það snjóleysið suðvestan- og vestanlands. Sáralitlu munar að met verði slegið. Ef ekki koma fleiri en 6 alhvítir dagar til áramóta er nýtt met slegið í Reykjavík,“ segir Trausti.  

Trausti bendir líka á að samkvæmt meðaltali ársins sé loftþrýstingur með því hæsta sem þekkist. Fjöldi sólskinsstunda hefur líka verið langt yfir meðallagi í Reykjavík, en þar verður þó ekki um ársmet að ræða.

Veðurblogg Trausta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert