Steingrímur af gamla skólanum

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon Ómar Óskarsson

„Steingrímur er af gamla skólanum í pólitík og menn af honum hafa ef til vill mótast af vinnubrögðum sem einkennast af meira flokksræði heldur en hitt,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, um tök fjármálaráðherra á þingliði sínu.

Grétar Þór telur að í ljósi þeirra átaka sem hafa geisað fyrir opnum tjöldum innan VG muni flokkurinn verða í veikari stöðu en ella, þegar samið verður um mannabreytingar í stjórnarliðinu vegna breyttrar ráðuneytisskipunar á næstunni.

Hann telur ekki fráleitt að ætla að stjórnarflokkarnir horfi til þess að styrkja stöðu sína á Alþingi.

„Þetta er óskaplega erfið staða fyrir stjórnarsamstarfið og þess vegna þyrfti það ekkert að koma á óvart að verið væri að kanna möguleika á því að styrkja liðið.“

- Hefur það komið þér á óvart hversu illa það hefur gengið að lægja öldurnar innan þingflokks VG?

„Ég held að það hafi komið flestum á óvart að á endanum skyldu það ekki aðeins vera einstaka þingmenn sem styddu ekki fjárlögin heldur að þrír þingmenn myndu ekki stilla sér upp á bak við þessi fjárlög. Það kemur verulega á óvart.

Svo setur maður spurningarmerki við það hvernig þessir þingmenn rökstyðja það af hverju þeir studdu ekki fjárlögin. Þau hafa vísað til þess að stjórnin hafi horfið frá stjórnarsáttmálanum. Hins vegar er mér ekki nokkur leið að sjá hvernig menn mælt það út úr stjórnarsáttmálanum hvort það fari gegn honum ef það verður einhver heldur minni áhersla á niðurskurð í velferðarmálum eða ekki. Ég held að þetta sé alltaf huglægt mat, hvenær flokkar fara úr fyrir stjórnarsáttmálann eða ekki.“

- Ef við víkjum að þeim tökum sem Steingrímur hefur haft á sínum flokki hefur það komið þér á óvart að honum skuli ekki hafa tekist að lægja öldurnar á öllum þeim tíma sem liðinn er frá því að ágreiningurinn innan þingflokks reis upp?

„Í raun ekki. Steingrímur er af gamla skólanum í pólitík og menn hafa ef til vill mótast af vinnubrögðum þar sem er meira flokksræði heldur en hitt. Hins vegar hefur maðurinn verið að gegna einhverju erfiðasta ráðherraembætti Íslandssögunnar, að vera fjármálaráðherra Íslands á þessum tímum. Það hefur verið í öll horn að líta fyrir hann og því gefist minni tími fyrir hann til að jafna öldur og skapa einingu innanhúss. Þannig að hann hefur haft alveg gríðarlega mikið á sínum herðum. Það er alveg ljóst.

Síðan er það hitt að margt af því fólki sem kom inn fyrir Vinstri græna í síðustu kosningum er fólk sem hefur ekki unnið mikið eða lengi í þessum flokki. Þetta eru hálfgerðir aðkomumenn. Það mætti segja að sumir kæmu inn af götunni. Sumt af fólkinu í órólegu deildinni er ekki búið að ala upp í flokknum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert