Davíð: Ekki starfhæf ríkisstjórn

Davíð Oddsson
Davíð Oddsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, segir í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í dag að út frá öllum mælikvörðum sé í raun ekki starfhæf ríkisstjórn í landinu og það megi rökstyðja með fjölmörgum dæmum. Hann segir ríkisstjórnina ekki einu sinni vita hvort hún sé með meirihluta fyrir frumvarpi til laga um Icesave-samkomulagið. Það sé merki um að hér sé ekki meirihlutastjórn sem hefur einhverja vigt. 

Davíð segir að hann hafi undrast að sú ríkisstjórn sem var við völd við hrunið (Sjálfstæðisflokkur og Samfylking) hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað var að gerast. „Ég átta mig ekki á því. Það virðist sem ráðherrarnir, rétt eins og forseti landsins, hafi haft einhverja ofurtrú á þessum ágætu bankamönnum. Það kom mér þannig fyrir sjónir í samtölum mínum við ráðherrana," segir Davíð í viðtali við Gísla Frey Valdórsson í Viðskiptablaðinu í dag.

Í viðtalinu staðfestir Davíð það sem kemur fram í bók Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, að Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka, hafi í samtali við Davíð í aðdraganda hrunsins sagt að Icesave-krafan yrði afskrifuð. Að sögn Davíðs er til upptaka af þessu samtali þeirra í Seðlabankanum.

Þá segir Davíð, þegar hann er spurður hvort hann líti svo á að hann sé þátttakandi í pólitík sem ritstjóri Morgunblaðisns, að hann hafi ætlað sér að vera hættur í pólitík þegar hann settist í Seðlabankann „en Steingrím og Jóhönnu langaði greinilega svona mikið að fá mig aftur. Mér er sagt að þau sjái eftir því og telji að sitt pólitíska líf hafi orðið erfiðara eftir að ég fór aðeins að skipta mér af þótt í litlu sé."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert