Gera alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð ráðuneytis

Geðdeild Landspítalans
Geðdeild Landspítalans Mbl.is/ Kristinn

Félag geðlækna telur afar brýnt að gripið sé til aðgerða til að sporna við misnotkun metýlfenidatlyfja. Hins vegar gerir félagið alvarlegar athugasemdir við að enginn geðlæknir hafi verið skipaður í vinnuhópinn, sem samanstóð einvörðungu af embættismönnum sem ekki hafa sérþekkingu á greiningu eða meðferð athyglisbrests með ofvirkni hjá fullorðnum (ADHD).   

Þetta kemur fram í ályktun frá félaginu.

„Almennur fundur í Geðlæknafélagi Íslands haldinn 29.12.2010 hefur fjallað um skýrslu vinnuhóps heilbrigðisráðuneytisins „til að skipuleggja aðgerðir til að draga úr ofnotkun og koma í veg fyrir misnotkun á metýlfenídati“, en skýrslan var birt í desember 2010.

 Fundurinn telur afar brýnt að gripið sé til aðgerða til að sporna við misnotkun þessara lyfja, en félagið hefur lýst sig reiðubúið til þátttöku í þeim aðgerðum.

 Fundurinn gerir hins vegar alvarlegar athugasemdir við að enginn geðlæknir hafi verið skipaður í vinnuhópinn, sem samanstóð einvörðungu af embættismönnum sem ekki hafa sérþekkingu á greiningu eða meðferð athyglisbrests með ofvirkni hjá fullorðnum (ADHD). 

 Fundurinn mótmælir eftirfarandi tillögu sem fram kemur í skýrslunni:

 „Vinnuhópurinn leggur til að yfirumsjón með frumgreiningum ADHD hjá fullorðnum, endurgreiningum og eftirliti með meðferð verði hjá göngudeild og bráðasviði geðdeildar LSH ...“

 Fundurinn telur að það eftirlit sem hér er lagt til sé lögbundið hlutverk Landlæknis, enda ekki í samræmi við góðar eftirlitsvenjur að framkvæmdaraðili hafi eftirlit með sjálfum sér, eða aðilum sem eru að vinna á sambærilegum stigum máls.

 Félagið telur eðlilegt að geðdeild Landspítala og FSA sé bakland vegna erfiðra mála sem upp kunna að koma í meðferð einstaklinga með ADHD eins og verið hefur í meðferð allra annarra geðsjúkdóma.  Til að svo megi verða þarf að efla getu sjúkrahúsanna til að sinna þessum erfiðu og sérhæfðu málum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert